Þremur leikjum var að ljúka í ensku úrvalsdeildinni þar sem nýliðar Sunderland byrja tímabilið á sigri gegn West Ham United.
Sunderland mætti til leiks með nýtt byrjunarlið sem innihélt mikið magn leikmanna sem voru keyptir í sumar. Þeir stóðu sig vel í frumrauninni og gáfu West Ham góðan leik.
Það ríkti þokkalegt jafnræði með liðunum og var staðan markalaus í leikhlé. Hamrarnir héldu boltanum vel en áttu erfitt með að skapa sér færi.
Síðari hálfleikurinn var alveg eins nema að heimamenn í liði Sunderland nýttu öll hálffærin sem þeir sköpuðu sér. Eliezer Mayenda tók forystuna á 61. mínútu og tvöfaldaði Daniel Ballard forystuna tólf mínútum síðar.
Hamrarnir áttu engin svör og innsiglaði Wilson Isidor 3-0 sigur með marki í uppbótartíma. Frábær endurkoma hjá Sunderland í úrvalsdeildina.
Sunderland 3 - 0 West Ham
1-0 Eliezer Mayenda ('61 )
2-0 Dan Ballard ('73 )
3-0 Wilson Isidor ('92 )
Tottenham sigraði einnig 3-0 þegar liðið tók á móti Burnley í fyrsta úrvalsdeildarleik Thomas Frank við stjórnvölinn.
Richarlison tók forystuna fyrir heimamenn snemma leiks eftir góðan undirbúning frá Mohammed Kudus og var staðan 1-0 í leikhlé. Tottenham var sterkari aðilinn en nýliðar Burnley áttu mikið af slökum marktilraunum utan vítateigs sem sköpuðu ekki hættu.
Tottenham skipti um gír í síðari hálfleik og tvöfaldaði Richarlison forystuna með frábærri afgreiðslu eftir fyrirgjöf frá Kudus. Brassinn skoraði með einskonar blöndu af klippu og bakfallsspyrnu áður en Brennan Johnson innsiglaði þægilegan 3-0 sigur.
Tottenham 3 - 0 Burnley
1-0 Richarlison ('10 )
2-0 Richarlison ('60 )
3-0 Brennan Johnson ('66 )
Brighton tók að lokum á móti Fulham og setti Yankuba Minteh boltann í netið snemma leiks en ekki dæmt mark vegna rangstöðu. Brighton var sterkari aðilinn en skapaði sér lítið sem ekkert í bragðdaufum fyrri hálfleik svo staðan var markalaus þegar leikmenn gengu til búningsklefa.
Miðjumaðurinn eftirsótti Matt O'Riley tók forystuna með marki úr vítaspyrnu snemma í síðari hálfleik og virtust heimamenn ætla að sigla sigrinum heim gegn bitlausum gestum frá Fulham.
Rodrigo Muniz kom af bekknum um miðbik seinni hálfleiks og lét til sín taka í uppbótartíma þegar hann skoraði dramatískt jöfnunarmark á 97. mínútu.
Hvorugt lið hafði tíma til að bæta marki við leikinn svo lokatölur urðu 1-1.
Til gamans má geta að báðir markaskorarar leiksins eru eftirsóttir af liðum á Ítalíu, þar sem Juve og Napoli vilja O'Riley á meðan Atalanta hefur mikinn áhuga á Muniz.
Brighton 1 - 1 Fulham
1-0 Matthew ORiley ('55 , víti)
1-1 Rodrigo Muniz ('97)
Wolverhampton Wanderers og Manchester City eigast við í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni sem hefst klukkan 16:30.
Athugasemdir