Ítalski sóknarmaðurinn Federico Chiesa skoraði sitt fyrsta deildarmark í 4-2 sigri Liverpool á Bournemouth í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar í gær. Hann segist vonast til þess að vera áfram á þessu tímabili.
Chiesa, sem kom til Liverpool frá Juventus á síðasta ári fyrir litlar 10 milljónir punda, var ekki stór hluti af liðinu er það vann Englandsmeistaratitilinn.
Þrátt fyrir að vera heill virtist Arne Slot ekki treysta honum fullkomlega til þess að hafa áhrif á leiki í deildinni og eðlilegt að framtíð hans hafi verið til umræðu í sumar.
Ítalskir miðlar og þeir stærstu á Englandi hafa sagt að Chiesa vilji fá stærra hlutverk og þurfi því að leita annað, en leikmaðurinn hefur nú tjáð sig og segist ánægður hjá félaginu.
Chiesa nýtti alla vega tækifærið í gær. Hann kom inn af bekknum og skoraði glæsilegt mark á lokamínútum leiksins áður en Mohamed Salah innsigldi sigurinn nokkrum mínútum síðar.
„Ég er ótrúlega ánægður hjá Liverpool. Ég mun ræða við félagið, en ég vil vera áfram hér og berjast um marga titla,“ sagði Chiesa eftir leikinn.
Athugasemdir