Sunderland mun kynna Nordi Mukiele til leiks sem nýjan leikmann á næstu dögum en hann er staddur í borginni þessa stundina til að gangast undir læknisskoðun og skrifa undir samning.
Sunderland borgar 12 milljónir punda til að kaupa Mukiele sem er 27 ára gamall og leikur sem hægri bakvörður að upplagi, en hann getur einnig spilað á hægri kanti eða sem miðvörður.
Mukiele kemur til nýliða ensku úrvalsdeildarinnar úr röðum PSG þar sem hann lék 45 leiki á tveimur árum áður en hann var lánaður til Bayer Leverkusen fyrir síðustu leiktíð.
Hann var þar áður með fast sæti í byrjunarliði Montpellier í Frakklandi og RB Leipzig í Þýskalandi.
Mukiele er franskur og hefur spilað einn A-landsleik eftir fimmtán leiki með yngri landsliðunum.
Hann verður ellefti leikmaðurinn sem Sunderland kaupir í sumar fyrir næstum því 150 milljónir punda samanlagt.
Hann mun meðal annars berjast við fyrrum liðsfélaga sinn Timothée Pembélé um byrjunarliðssæti.
Athugasemdir