
„Þetta er á sama stalli hjá mér, að fara á bikarúrslitaleik hjá kvennaliði FH, og þegar ég keyrði norður í dagsferð til að sjá fyrsta Íslandsmeistaratitil FH fara á loft," sagði Magnús Haukur Harðarson í nýjasta þætti af Uppbótartímanum.
Kvennalið FH spilar í fyrsta sinn í bikarúrslitum á morgun er þær mæta Breiðabliki á Laugardalsvelli.
Kvennalið FH spilar í fyrsta sinn í bikarúrslitum á morgun er þær mæta Breiðabliki á Laugardalsvelli.
Það er ekki langt síðan FH var jójó lið í kvennaboltanum, flakkandi um á milli deilda, en í dag eru þær besta lið landsins ásamt Blikum. Það hefur verið mikil vegferð í gangi með kvennaliðið í Kaplakrika síðustu árin.
„Ég vona að þetta líti svoleiðis út líka fyrir alla FH-inga og þeir mæti á völlinn," sagði Maggi en þetta er risastór leikur fyrir Fimleikafélagið.
Guðni Eiríksson, þjálfari FH, er brattur á að það verði vel mætt úr Hafnarfirðinum.
„Það var verið að tala um eitthvað áhorfendamet, 2500 manns, en FH-ingar munu sjá til þess að það met verði margslegið á laugardaginn. Það verður svarthvítur her upp í stúku að styðja liðið sitt áfram," sagði Guðni.
Leikurinn á morgun hefst klukkan 16:00.
Athugasemdir