Heimild: Vísir
Víkingar eru sárir og svekktir eftir að liðið féll úr leik í Sambandsdeildinni eftir ótrúlegt tap gegn Bröndby í gær. Liðið var þremur mörkum yfir eftir fyrri leikinn en tapaði 4-0 í Danmörku eftir að hafa verið manni fleiri lengst af.
Nikolaj Hansen ræddi við Sýn Sport eftir leikinn.
Nikolaj Hansen ræddi við Sýn Sport eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Bröndby 4 - 0 Víkingur R.
„Ég er bæði svekktur með sjálfan mig og hvernig liðið spilaði í þessum leik. Fyrri hálfleikur var svo sem allt í lagi en það hefði skipt okkur máli að ná að halda hreinu út hálfleikinn. Þeir skora ömurlegt mark rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og það kom þeim á bragðið,“ sagði Nikolaj Hansen.
„Við náðum ekki upp neinu spili og sköpuðum þar af leiðandi engin færi að þessu sinni. Við ógnuðum þeim ekki að neinu viti og það er gríðarlega svekkjandi hversu illa við spiluðum hérna eftir flottan fyrri leik."
Tilfinningarnar sem Nikolaj fann þegar Víkingur tapaði gegn Breiðabliki í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð brutust út í gær.
„Þetta er sama tilfinning og ég fann þegar við töpuðum titilinum til Blika síðasta haust og það er alveg ömurlegt að upplifa slíkar tilfinningar aftur. Þetta var hræðileg frammistaða og það svíður sárt að hafa ekki náð að spila betur þegar svona mikið er undir," sagði Niko.
„Við þurfum bara að halda áfram og mæta upp á Skaga og gera betur þar. Ef við ætlum að halda von í því að verða Íslandsmeistari þá verðum við einfaldlega að spila betur en við gerðum í kvöld. Við vinnum ekki titilinn ef við spilum svona í þeim leikjum sem eftir eru í deildinni.“
Athugasemdir