Bandaríski-íslenski sóknarmaðurinn Cole Campbell fer ekki til Stuttgart í glugganum en þetta segir Patrick Berger hjá Sky í Þýskalandi.
Cole, sem er 19 ára gamall, spilaði með FH og Breiðabliki hér á landi, ásamt því að hafa leikið með yngri landsliðum Íslands.
Í mars á síðasta ári samþykkti Cole að spila með Bandaríkjunum, en faðir hans er bandarískur á meðan móðir hans er íslensk. Síðan þá hefur hann spilað með bæði U19 og U20 ára landsliði Bandaríkjanna.
Hann fékk nokkur tækifæri með aðalliði Dortmund á síðustu leiktíð og hefur Niko Kovac, þjálfari liðsins, talað um að hann væri til að nota hann meira, en því miður geti hann ekki lofað honum meiri spiltíma.
Stuttgart lagði fram 7 milljóna evra tilboð í Cole sem Dortmund taldi allt of lágan verðmiða fyrir leikmann í þessum gæðaflokki. Eftir langar viðræður ákvað Dortmund að hafna tilboði Stuttgart og ljóst að hann mun ekki fara þangað.
Óvíst er með framhaldið. Dortmund sér Cole sem framtíðarleikmann og væri helst af öllu til í að halda honum áfram, en alls ekki hægt að útiloka það að hann færi sig um set fyrir gluggalok.
Athugasemdir