Fyrrum leikmaðurinn Ben Mee hrósar þeim Eberechi Eze og Marc Guehi fyrir að mæta til leiks með Crystal Palace er liðið heimsækir Chelsea í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.
Báðir leikmenn eru sagðir á förum frá Palace fyrir gluggalok, en Liverpool er í viðræðum um Guehi á meðan Eze hefur tjáð Palace að hann vilji fara til Tottenham.
Þrátt fyrir að viðræður séu hafnar um báða leikmenn þá var ákveðið að þeir myndu spila í dag og samþykktu þeir að gera það. Engin dramatík í kringum það og báðir í byrjunarliðinu á Stamford Bridge.
Mee, sem lék með Brentford, Burnley, Leicester og Manchester City á ferlinum, hrósaði þeim fyrir að virða samninginn og virtist um leið skjóta lúmsku skoti á Alexander Isak og Yoane Wissa, sem ákváðu báðir að fara aðra leið með því að neita að æfa með félögum sínum, en Isak hefur ekkert spilað með Newcastle síðustu vikur og sama á við um Wissa.
„Verð að hrósa Palace-gaurunum tveimur fyrir að mæta til leiks í dag og um leið sýna liðinu, stjóranum og stuðningsmönnum virðingu með að spila.“
„Ekkert er klárt fyrr en það er klárt. Þú verður að virða samninginn, mæta til leiks og spila með liðsfélögunum sem þú hefur verið með í svona langan tíma,“ sagði Mee á BBC.
Athugasemdir