
„Ógeðslega ánægð, sjúklega glöð, gott að vinna bikar," segir bikarmeistarinn Heiða Ragney Viðarsdóttir, leikmaður Breiðabliks, eftir sigur á FH í úrslitaleik Mjólkurbikarsins.
Lestu um leikinn: FH 2 - 3 Breiðablik
„Mér fannst ekkert rosalega mikið í kringum leikinn í þetta skiptið, við vorum rosa mikið að einbeita okkur að því að þetta sé eins og hver annar leikur, og held að það hafi alveg skilað. Það var ekkert stress í kringum leikinn, en svo þegar maður labbar inn á völlinn, og það er svo mikið af fólki, þá er það náttúrulega hrikalega skemmtilegt."
„Mér fannst við sem lið kannski búa til meira í kringum leikinn í fyrra, núna vorum við mjög frjálslegar í kringum þennan dag og nálguðumst þetta sem hvern annan leik. Margar í Breiðabliki eru orðnar vanar þessu," sagði Heiða sem var að spila sinn annan bikarúrslitaleik.
„Mér fannst stuðningurinn geggjaður, vá hvað ég er ánægð að sjá svona rosalega mikið af fólki. Það voru svo mikil læti að maður heyrði ekki neitt inn á vellinum. Mjög glöð og meira svona!"
„Ég var svo fegin þegar það var flautað til leiksloka, sérstaklega eftir að þær skoruðu markið en svo var það rangstaða. Það var mjög gott þegar lokaflautið kom."
Hún kom frá Stjörnunni fyrir síðasta tímabil og hefur nú unnið deildina og bikartitil.
„Mér líður virkilega vel, þetta var það sem ég vildi, ég vildi vinna bikara og það hefur komið. Þannig ég er mjög ánægð með þessi skipti," segir bikarmeistarinn.
Athugasemdir