Englandsmeistarar Liverpool gætu enn keypt einn eða tvo leikmenn fyrir gluggalok en þeir hafa áhuga á Alexander Isak hjá Newcastle og Marc Guéhi hjá Crystal Palace.
Sky Sports greinir frá því að Palace vill fá meira en 40 milljónir punda til að selja Guéhi þó að hann eigi aðeins eitt ár eftir af samningi.
Guéhi er 25 ára gamall og hefur gefið það til kynna að hann ætli ekki að skrifa undir nýjan samning við Palace. Orðrómarnir virðast þó ekkert trufla hann þar sem honum líður vel hjá félaginu og er fyrirliði.
Það eru fleiri félög áhugasöm um Guéhi en ekkert tilboð hefur verið lagt fram sem kemst nálægt þeirri upphæð sem Palace vill fá fyrir miðvörðinn sinn.
Liverpool hefur verið lélegt varnarlega á upphafi tímabils og fékk tvö mörk á sig gegn Palace í úrslitaleiknum um Samfélagsskjöldinn og önnur tvö mörk á sig gegn Bournemouth í fyrstu umferð nýs
úrvalsdeildartímabils.
Stjórnendur félagsins eru þó að velta því fyrir sér hvort það geti verið skynsamlegt að bíða í eitt ár og reyna að krækja í Guéhi á frjálsri sölu næsta sumar.
Guéhi er spenntur fyrir félagaskiptunum en á sama tíma þolinmóður. Hann verður í betri samningsstöðu ef hann fer frítt næsta sumar.
Búist er við að Guéhi verði á sínum stað í byrjunarliðinu þegar Palace heimsækir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Athugasemdir