Martin Ödegaard er áfram fyrirliði Arsenal þrátt fyrir að hafa ekki átt sitt besta tímabil með liðinu á síðustu leiktíð.
Ödegaard var harkalega gagnrýndur fyrir frammistöðu sína á tímabilinu og var goðsögnin Tony Adams meðal þeirra sem kölluðu eftir því að fyrirliðabandið yrði tekið af Norðmanninum.
Mikel Arteta þjálfari Arsenal hélt kosningu um hver ætti að taka við fyrirliðabandinu og vann Ödegaard yfirgnæfandi stórsigur.
Adams, sem vann fjóra úrvalsdeildartitla sem fyrirliði Arsenal, vildi sjá Declan Rice fá fyrirliðabandið.
14.08.2025 10:30
Goðsögn kallar eftir því að fyrirliðabandið sé tekið af Ödegaard
„Ég bað leikmenn og starfsmenn um að kjósa nýjan fyrirliða og ég fékk niðurstöðurnar í hendurnar í gær," sagði Arteta á fréttamannafundi fyrir fyrsta leik úrvalsdeildartímabilsins gegn Manchester United. „Martin hlaut mikla yfirburðakosningu þar sem nánast hver einasti maður innan félagsins vill sjá hann sem fyrirliða. Það fer ekki á milli mála hver fyrirliðinn okkar er."
Ödegaard hefur verið fyrirliði Arsenal síðan 2022 en liðinu hefur ekki tekist að vinna einn einasta titil á þeim tíma þrátt fyrir að enda ýmist í öðru eða þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Skytturnar hafa keypt leikmenn inn í sumar fyrir tæplega 200 milljónir punda í tilraun til að fullkomna leikmannahópinn sinn og byrjunarliðið. Markmið tímabilsins er að vinna ensku úrvalsdeildina eða Meistaradeild Evrópu.
Athugasemdir