Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 17. nóvember 2022 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Fór á milli erkifjenda fyrir norðan - „Ekki hægt að hafna tækifærinu"
Harley Willard eftir sigurleik með Þór í sumar.
Harley Willard eftir sigurleik með Þór í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Víkingi Ólafsvík.
Í leik með Víkingi Ólafsvík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA hafnaði í öðru sæti Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð og leikur í Evrópukeppni á næstu leiktíð.
KA hafnaði í öðru sæti Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð og leikur í Evrópukeppni á næstu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það gerist ekki alveg á hverjum degi að leikmaður fari á milli nágrannana í Þór og KA en það gerðist núna á dögunum.

Breski framherjinn Harley Willard ákvað að skipta yfir úr Þór og fara í KA. Hann átti mjög gott sumar í Lengjudeildinni þar sem hann skoraði ellefu mörk í 22 leikjum.

Willard hefur leikið lengi á Íslandi, eða frá 2019. Hann lék með Víkingi Ólafsvík frá 2019 og svo með Þór í sumar. Hann segir að hann hafi látið Þórsara vita fyrir fram að hann væri með metnað til að spila á hærra stigi.

„Ég naut tímans hjá Þór en áður en ég gekk til liðs við félagið þá vissu þeir að ég væri með metnað til að taka næsta skref og spila á hærra stigi, hvort sem það væri á Íslandi eða í öðru landi. Við ræddum saman eftir tímabilið og báðir aðilar komust að þeirri niðurstöðu að það væri rétt að fara í sitthvora áttina," segir Willard í samtali við Fótbolta.net.

„Persónulega þá var ég ánægður með tímabilið mitt en við sem lið vorum frekar vonsviknir. Við byrjuðum tímabilið ekki nægilega vel en seinni hlutinn var mjög jákvæður. Ég lít til baka á tímann hjá Þór með jákvæðum augum."

Var með fimm tilboð frá íslenskum félögum
Willard segir að það hafi verið mikill áhugi, bæði á Íslandi og erlendis. Hann kveðst hafa fengið fimm tilboð úr efstu tveimur deildunum á Íslandi.

„Í efstu tveimur deildunum á Íslandi þá fengum við fimm tilboð og þá ræddum við einnig við félög frá Skotlandi, Írlandi og Sviss. Ég var einbeittur á það að taka rétt skref og gera ekki mistök í valinu. Ég varð að taka rétt skref."

Og hann valdi KA. Hvað var það við KA sem heillaði?

„Frá því ég kom til Íslands þá hef ég hugsað um það að spila á hærra stigi og prófa mig áfram, það hefur verið markmið mitt. Ég vil þróa mig áfram sem leikmaður og sem manneskja. KA er að gefa mér gott tækifæri. Þetta er vel rekið félag, með góðan strúktur og hefur verið að bæta sig á hverju ári. Að spila í Evrópukeppni heillaði mig líka og var þetta tækifæri sem hefði verið gríðarlega erfitt að hafna," segir hann.

Willard mun áfram búa á Akureyri og gæti vel verið að hann muni hitta á stuðningsmenn Þórs í bænum. Hefur hann áhyggjur af því hvernig viðbrögð Þórsara verða?

„Ég skil hvað stuðningsmennirnir munu segja. Það eiga allir rétt á sinni skoðun, en þegar ég spilaði með Þór þá gaf ég alltaf 110 prósent fyrir félagið og sýndi að ég tel mikla fagmennsku. Ég ber virðingu fyrir öllum hjá félaginu og óska þeim hins besta fyrir framtíðina. En það var ekki hægt fyrir mig að hafna tækifærinu á að spila í Bestu deildinni og í Evrópu, það var ómögulegt."

Er tilbúinn í þetta
Willard, sem er 25 ára, hefur leikið í fjögur tímabil í Lengjudeildinni og hann kveðst núna tilbúinn í það að taka skrefið upp á við.

„Ég átti fjögur frábær tímabil í Lengjudeildinni. Ég hef skorað og búið til mikið af mörkum til þess að hjálpa liðunum sem ég hef verið með, sama í hvaða stöðu liðið er í töflunni. Ég er tilbúinn og hungraður í þetta tækifæri. Núna verð ég að sanna að ég sé með gæðin til að spila í þessari deild og ég hef trú á því að ég geti gert það," segir Willard og bætir við:

„KA er stórkostlegt lið sem spilaði mjög vel á síðustu leiktíð. Það eru margir frábærir leikmenn í liðinu. Ég mun gera mitt besta og ég mun skilja allt eftir á vellinum. Ég hlakka til að hitta liðsfélagana og ræða enn frekar við þjálfarateymið. Eins og hver einasti leikmaður, þá vil ég spila eins mikið og hægt er, skora mörk og leggja upp. KA er með mikinn metnað og ég hlakka til að vera hluti af því."
Athugasemdir
banner
banner
banner