Eddie Howe, stjóri Newcastle United, segir frammistöðuna hjá liðinu í 3-0 sigrinum á PSV frábæra og var hann sérstaklega ánægður með nokkra leikmenn.
Yoane Wissa, Anthony Gordon og Harvey Barnes skoruðu mörkin, en hann vildi hrósa Wissa og Gordon sérstaklega.
„Þetta var ótrúlega góð frammistaða frá okkur. Erfiður andstæðingur og taktíst mjög erfitt að spila gegn þeim.“
„Við náðum að uppskera nokkur mjög góð mörk. Frábært kvöld hjá Yoane Wissa og er ég ótrúlega ánægður fyrir hans hönd. Að hluta til kom hann til félagsins til að upplifa kvöld eins og þessi. Leikmennirnir tóku þessari áskorun fagnandi og ef ég horfi á einstaklingsframmistöðu frá mörgum leikmönnum þá var þetta líklega ein sú besta í langan tíma.“
„Margir af leikmönnunum hafa verið stórkostlegir í þessari keppni á þessu tímabili og Anthony Gordon er einn af þeim,“ sagði Howe.
Það kom á óvart þegar Kieran Trippier afhenti Lewis Miley bandið þegar sá síðarnefndi kom inn á en Howe segir það ekki hafa verið planað. Bruno Guimares er fyrirliði liðsins en hann fór meiddur af velli og kom Miley inn í hans stað. Trippier er vanalega varafyrirliði en ákvað að gefa Miley bandið.
„Þetta var ekki í handritinu og ekki planað. Týpískur Kieran að hugsa um aðra en sjálfan sig og auðvitað frábært augnablik fyrir Lewis.“
Newcastle heimsækir Evrópumeistara Paris Saint-Germain í lokaumferðinni en það mun líklega ráða því hvort liðið fari beint í 16-liða úrslit eða í umspilið.
„Við verðum að reyna það. Það er eitt skref í einu samt því við mætum fyrst Aston Villa. Deildin er mjög mikilvæg og það verður erfiður leikur.“
Eins og áður kom fram meiddist Guimaraes í leiknum og gat ekki klárað fyrri hálfleikinn en Howe segir það vera áhyggjuefni.
„Það er alltaf áhyggjuefni þegar Bruno þarf að fara af velli, en við krossum fingur,“ sagði Howe.
Athugasemdir




