Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 17. nóvember 2022 17:21
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hannes um endalokin í Val: Á dauða mínum átti ég von en ekki þessu
Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Guðjónsson, fyrrum þjálfari Vals.
Heimir Guðjónsson, fyrrum þjálfari Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samningi Hannesar var óvænt rift.
Samningi Hannesar var óvænt rift.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes Þór Halldórsson, einn besti markvörður Íslandssögunnar, lagði hanskana á hilluna fyrr á þessu ári.

Hannes lék 77 landsleiki fyrir Ísland og er án nokkurs vafa besti markvörður í sögu landsliðsins. Hann varði mark Íslands á EM í Frakklandi 2016 og á HM í Rússlandi 2018.

Hannes er uppalinn hjá Leikni í Breiðholti og varð Íslandsmeistari með KR tvívegis og Val einu sinni. Hans síðasta tímabil á ferlinum var í treyju Valsmanna í efstu deild í fyrra en það hafa margar spurningar vaknað um endalokin hjá Val.

Valur ákvað óvænt að rifta samningi við Hannes en litlu hefur verið svarað um það hvers vegna það var. Hannes var spurður út í endalokin hjá Val í Chess After Dark sem hann var ósáttur við.

„Þetta er frábær spurning. Ég fékk aldrei neinar skýringar á þessu. Það verður bara að segjast eins og er."

„Mér finnst það versta við þetta. Þetta er risastór ákvörðun sem er tekin þarna og það eru hvorki gefnar skýringar út á við né til mín. Þetta kom algjörlega eins og þruma úr heiðskíru lofti. Á dauða mínum átti ég von en ekki þessu... Ég frétti af þessu daginn eftir síðasta leik í gegnum fjölmiðla."

Hannesi fannst frammistaða sín vera góð á tíma sínum hjá Val en samt ákvað félagið að það væri best að halda áfram án hans.

„Það var löngu búið að ganga frá þessu og það átti að halda því frá minni vitneskju. Þá náttúrulega fýkur svolítið í mig og ég reyni að ganga á menn og komast að því hvað sé í gangi. Ég fæ engin svör fyrr en nokkrum dögum seinna. En svör? Svo fór þetta í þetta mál sem er ótrúlega leiðinlegt fyrir alla aðila sem komu að því. Þetta hefði aldrei þurft að fara svona."

Hannes var ósáttur við það hvernig Heimir Guðjónsson, þáverandi þjálfari Vals, kom fram í þessu máli. „Ég stóð í þeirri trú á þessum tímapunkti að okkar samband væri fínt. Hann hafði reynst mér að mörgu leyti vel sem þjálfari Vals... ég ber virðingu fyrir því sem Heimir hefurt gert á sínum þjálfaraferli. Ég óska honum velfarnaðar í nýju starfi en hans framkoma í þessu máli litar það sem álit sem ég hafði á honum."

Hannes fékk ekki almennileg svör. „Ég heyrði ekkert frá Val eða neinum þarna fyrr en einhverjum þremur dögum eftir að þetta var komið í loftið. Ég var alla dagana búinn að reyna að hafa samband við einhvern þarna niður frá. Síðan kemur símtal þar sem er farið mjög stuttlega yfir þetta."

„Mér finnst fyrst og fremst leiðinlegt að þetta fari í þennan farveg því þetta var óþarfi. Fyrst þessi ákvörðun var tekin þá hefði verið hægt að afgreiða þetta á allt annan hátt," segir Hannes en hægt er að hlusta á allt viðtalið í heild sinni hér að ofan þar sem hann meira um þetta og margt fleira.

Sjá einnig:
Heimir vildi ekki tjá sig um Hannes: Er ekki komið 2022?


Athugasemdir
banner
banner