Watkins orðaður við United - Bayern sýnir Díaz áhuga - Arsenal hefur rætt við Eze
   sun 19. september 2021 15:43
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hannes bauð stelpunum upp á forsýningu af Leynilöggunni
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefur verið líf og fjör hjá íslenska kvennalandsliðinu í undirbúningnum fyrir leikinn gegn Hollandi í undankeppni HM á þriðjudag.

Liðið er með bækistöðvar í Hveragerði og hefur æft á Grýluvelli, heimavelli Hamars. Einnig hefur liðið æft á Laugardalsvelli.

Utan vallar hefur liðið náð að skemmta sér vel og þjappa sér vel saman fyrir leikinn. Stelpurnar fóru í golf og paintball, og í gær fengu þær bíósýningu.

Hannes Þór Halldórsson, fyrrum landsliðsmarkvörður, mætti á svæðið og gaf landsliðinu forsýningu af fyrstu bíómynd hans í fullri lengd, Leynilögga. Hannes, sem er besti markvörður í sögu karlalandsliðsins, leikstýrði myndinni og meðal leikara eru Auðunn Blöndal, Sveppi, Steindi, Gillz, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Björn Hlynur Haraldsson.

„Það hefur verið ótrúlega gaman að fá loksins að gera eitthvað svona skemmtilegt. Það er búið að vera mikið af takmörkunum í gangi í síðustu verkefnum. Ég þekki ekki neitt annað en að vera í landsliðinu á meðan Covid er í gangi," sagði Sveindís.

„Það var gaman að fá að fara í paintball og golf, og í bíó í gær. Þessi mynd sem Hannes var með var ótrúlega skemmtileg."
Athugasemdir
banner