Semenyo og Neves orðaðir við Man Utd - Maresca á blaði hjá City - Atletico hefur áhuga á Rashford
   fös 19. desember 2025 17:54
Ívan Guðjón Baldursson
Andri Freyr semur við Gróttu (Staðfest)
Lengjudeildin
Mynd: Grótta
Andri Freyr Jónasson er búinn að gera tveggja ára samning við Gróttu eftir að hafa gert flotta hluti á láni með félaginu á seinni hluta sumars.

Andri Freyr var lykilmaður á lokakaflanum þegar Grótta vann síðustu sex leiki tímabilsins til að tryggja sér sæti í Lengjudeildinni eftir harða toppbaráttu í 2. deild.

Andri er 27 ára gamall og uppalinn hjá Aftureldingu. Hann varð markakóngur 2. deildar með Mosfellingum árið 2018 þegar hann skoraði 21 mark í 18 leikjum. Hann kom svo við sögu í sjö leikjum með uppeldisfélaginu í Bestu deildinni í sumar áður en hann var lánaður til Gróttu.

Andri skoraði 5 mörk í 9 leikjum með Gróttu á seinni hluta tímabils og er lykilmaður í byrjunarliðinu.

„Það er frábært að fá Andra Frey í okkar raðir. Hann kom sterkur inn í sumar og stóð sig ekki bara vel inni á vellinum heldur sýndi svo ekki verður um villst hversu traustur og jákvæður karakter hann er. Við ætlum að bæta nokkrum lykilmönnum við Gróttuliðið og það er mjög jákvætt að klára þann fyrsta núna fyrir jólin," segir Magnús Örn Helgason, yfirmaður fótboltamála hjá Seltirningum.


Athugasemdir
banner