Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 19. nóvember 2022 10:09
Brynjar Ingi Erluson
Forseti FIFA kemur Katar til varnar - „Á erfitt með að skilja þessa gagnrýni"
Gianni Infantino, forseti FIFA
Gianni Infantino, forseti FIFA
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Gianni Infantino, forseti FIFA, var með þrumuræðu á fréttamannafundi í Doha í Katar í dag en hann segir vesturlöndin ekki hafa efni á því að gagnrýna Katar.

Heimsmeistaramótið í Katar hefst á morgun er gestgjafarnir taka á móti Ekvador en umræðan í kringum mótið hefur verið nokkuð óvenjuleg og snýst um svo margt meira en bara fótbolta.

Guardian sagði frá því á síðasta ári að minnsta kosti 6500 farandsverkamanna frá Indlandi, Nepal, Pakistan, Bangladesh og Sri Lanka hefðu dáið við að byggja nýja leikvanga fyrir mótið en þetta er byggt á upplýsingum frá sendiráðum þessara þjóða.

Þá hefur meðferð yfirvalda í Katar á samkynhneigðum verið gagnrýnd en samkynhneigð er ólögleg í landinu. Yfirvöld hafa þegar greint frá því að allir séu velkomnir á heimsmeistaramótið en að samkynhneigðir verði þó að virða lög og reglurnar í landinu.

Infantino er kominn með nóg af endalausri gagnrýni í garð Katar og segir þetta hræsni.

„Ég er með sterkar tilfinningar í dag. Ég er frá Kata, er arabi, afrískur og samkynhneigður. Ég er fatlaður og ég er farandverkamaður,“ sagði Infantino í ræðu sinni á fréttamannafundi.

„Ég er frá Evrópu. Við ættum að biðjast afsökunar næstu 3000 árin fyrir allt sem við gerðum á síðustu 3000 árum áður en við förum að gerast einhverjir siðapostular.“

„Ef Evrópu er ekki sama um örlög þessa fólks þá getur það farið í löglegu leiðina eins og Katar gerði og þá geta þessir verkamenn komið til Evrópu og unnið þar. Gefið þeim framtíð og einhverja von.“

„Ég á erfitt með að skilja þessa gagnrýni. Við verðum að fjárfesta í þessu fólki og hjálpa þeim með menntun og gefa þeim betri framtíð og meiri von. Við ættum öll að fræða okkur því það er margt sem er ekki fullkomið en endurbætur og breytingar er eitthvað sem tekur sinn tíma.“

„Þessi einhliða siðalexía er bara hræsni. Ég velti fyrir mér af hverju enginn sér framfarirnar sem hafa átt sér stað hérna frá 2016. Það er ekki auðvelt að taka gagnrýni sem varðar ákvörðun sem átti sér stað fyrir tólf árum. Katar er klárt fyrir mótið og þetta verður besta HM í sögunni.“

„Ég þarf ekki að vernda Katar, þjóðin er fullfær um að gera það sjálf. Ég vernda fótboltann,“
sagði Infantino ennfremur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner