lau 19. nóvember 2022 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Styrktaraðilar hafa áhyggjur af bjórbanninu
Mynd: EPA
Fjölmargir styrktaraðilar heimsmeistaramótsins hafa lýst yfir áhyggjum af bjórbanni sem yfirvöld í Katar greindu frá í gær en þetta herma heimildir Guardian.

Yfirvöld í Katar sögðu frá því fyrir mótið að stuðningsfólk ætti möguleika á því að kaupa bjór á leikvöngum í landinu en það var svo tekið til baka tveimur dögum fyrir opnunarleik mótsins.

Þetta flækti málin verulega þegar það kemur að styrktaraðilum mótsins en bjórframleiðandinn Budweiser er er með 63 milljón punda samning við FIFA.

FIFA staðfesti í gær að bjór yrði ekki seldur á mótinu og í kjölfarið hafa fjölmargir styrktaraðilar lýst yfir áhyggjum af stöðunni og funda nú til að ákveða næstu skref.

Alþjóðasambandið gæti átt von á því að Budweiser eigi eftir að leita réttar síns. Yfirvöld í Katar gætu þó farið í samningaviðræður til að minnka fjárhagslegan skaða bandaríska bjórframleiðandans.

Yfirvöld í Katar lofuðu því fyrir mót að bjór yrði seldur en nú er verið að taka ýmislegt til baka. Stuðningsfólk sem fékk fría ferð á mótið gegn því að það fólk myndi reyna að bæta ímynd landsins og búa til jákvæða umfjöllun, mun ekki fá dagpeninga í ferðinni þó það hafi verið samið um það.

Bjórbannið var sett á með litlum fyrirvara og því hefur stuðningsfólk eflust áhyggjur af því hvort öryggi þeirra sé raunverulega í hættu í Katar.
Athugasemdir
banner
banner
banner