mið 20. janúar 2021 21:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heimild: Feykir.is 
Penninn á lofti hjá Stólunum - Guðni og Óskar þjálfa liðið saman
Óskar Smári kemur inn í þjálfarateymið.
Óskar Smári kemur inn í þjálfarateymið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Penninn hefur verið á lofti hjá Tindastóli undanfarna daga en liðið leikur í Pepsi Max-deild kvenna í fyrsta sinn á næsta ári.

Þeir Guðni Þór Einarsson og Jón Stefán Jónsson komu liðinu upp úr Lengjudeildinni á síðasta ári, en Jón Stefán verður ekki áfram. Þess í stað er búið að ráða heimamanninn Óskar Smára Haraldsson inn í teymið með Guðna.

„Óskar er metnaðarfullur þjálfari og er frábær viðbót í hópinn okkar. Honum fylgir mikill kraftur og ferskleiki og það hjálpar mikið að hann hefur starfað í efstu deild síðustu ár. Hann þekkir liðin og deildina vel og sú þekking mun reynast okkur mjög dýrmæt. Ég hlakka mikið til að vinna með Óskari í sumar," segir Guðni við Feyki.is.

Óskar starfaði á síðasta ári hjá Stjörnunni og var hann aðstoðarþjálfari kvennaliðsins þar.

„Ég held að ef allir leggjast á eitt þá getum við gert þetta sumar að mjög góðu og skemmtilegu sumri. Vissulega verður þetta erfiðara en undanfarin ár en ég hefði aldrei tekið þetta að mér með Guðna ef ég hefði ekki trú á stelpunum og verkefninu. Liðsheildin sem er í þessu liði er ótrúleg og hlakka ég til að fá að vera hluti af henni," segir Óskar við Feyki.is.

Tíu heimastúlkur skrifuðu þá undir áframhaldandi samning við Tindastól.

Þær sem skrifuðu undir samninga voru Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði liðsins, Anna Margrét Hörpudóttir, Bergljót Ásta Pétursdóttir, Birna María Sigurðardóttir, Hugrún Pálsdóttir, Ingibjörg Fjóla Ágústsdóttir, Kristrún María Magnúsdóttir, Magnea Petra Rúnarsdóttir, Margrét Rún Stefánsdóttir og Sólveig Birta Eiðsdóttir. Áður höfðu Amber Michel, Jackie Altschuld og Murielle Tiernan samið við Tindastól en þær eru nú nánast orðnir Króksarar eftir ævintýri síðustu sumra.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner