Man City, Man Utd og Arsenal á eftir Etta Eyong - Milan hefur áhuga á Zirkzee - Bayern í viðræðum um bakvörð
banner
   fös 31. október 2025 15:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Gæsahúð að hugsa til haustsins 1998 - „Heimkoman var algjörlega sturluð"
'Topparnir eru fyrst og fremst titlarnir og að fara upp með lið'
'Topparnir eru fyrst og fremst titlarnir og að fara upp með lið'
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Vann nokkra titla á ferlinum, hér er hann með Fótbolti.net bikarinn haustið 2024.
Vann nokkra titla á ferlinum, hér er hann með Fótbolti.net bikarinn haustið 2024.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fór sjö sinnum upp um deild sem þjálfari.
Fór sjö sinnum upp um deild sem þjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarni Jóhannsson gæti verið búinn að þjálfa sinn síðast meistaraflokksleik á ferlinum en hann er án starfs eftir að hafa ákveðið að framlengja ekki við Selfoss í haust. Selfoss féll úr Lengjudeildinni og segir Bjarni það vera ein mestu vonbrigði ferilsins.

Bjarni er 67 ára og hefur verið þjálfari í meistaraflokki í 36 tímabil. Hann ræddi við Fótbolta.net.

Unnið fjóra stóra titla og farið sjö sinnum upp um deild
Hann segir að titlarnir séu topparnir á ferlinum, og þau skipti sem hann fór með lið upp um deild.

„Topparnir eru fyrst og fremst titlarnir og að fara upp með lið. Það er alltaf minnisstæðast, þegar ég fór upp með Selfoss var ég í sjöunda skiptið að fara upp um deild með lið. Á seinni stigum, þegar ég var farin að stýra liðum neðar en í Bestu deildinni, þá fann ég að það gaf mér áfram mjög mikið."

„Ég hef aldrei verið þjálfari í fullu starfi, það er öðruvísi í þessum heimi í dag, flóran er að breytast,"
segir Bjarni sem er að kenna við Borgarholtsskóla.

Bæjarstjórinn dansaði upp á borðum
Ljúfustu minningarnar á ferlinum tengjast ÍBV. Hann varð Íslandsmeistari 1997 með ÍBV, Íslands- og bikarmeistari '98 með ÍBV og svo bikarmeistari með Fylki 2001.

„Að labba með bikarinn út af KR velli '98 í hreinum úrslitaleik var náttúrulega bara... og heimkoman eftir þann leik var algjörlega sturluð. Mig minnir að það hafi verið rúmlega 5000 manns á leiknum, keyrðum til Þorlákshafnar, tókum Herjólf til Eyja þar sem bæjarstjórinn dansaði upp á borðum - og móttökurnar þar eru einn af toppunum í þessu. Maður fær gæsahúð við að hugsa til baka. Það eru að verða 30 ár síðan," segir Bjarni og hlær.

Hundraðasti sigurinn eftirminnilegur
Bjarni hefur þjálfað 255 leiki í efstu deild og alls 674 KSÍ leiki. Hann segir að 100. sigurinn í efstu deild hafi einnig verið mjög eftirminnilegur. „Ég á yfir 100 sigra og 100. sigurinn í efstu deild var mjög eftirminnilegur." Hann var þá þjálfari Stjörnunnar, árið var 2012 og liðið vann Grindavík á útivelli, 1-4. „Það eru ennþá tveir leikmenn að spila í efstu deild, Íslandsmeistarinn Ingvar Jónsson í markinu og Kennie Chopart - orðnir hundgamlir menn í dag - og svo er Daníel Laxdal nýhættur."

„Mér skildist á Víði Sigurðssyni (blaðamanni Morgunblaðsins) að ég væri langleikjahæsti þjálfarinn frá upphafi. 36 tímabil, þar af þrettán í efstu deild."

„Það líður að lokum þessa ferils eins og allra"
Ef að kallið kæmi frá félagi í þjálfaraleit, hvað myndir þú segja?

„Ég hef fengið nokkur símtöl, ég hef bara ýtt því til hliðar. Ég er svolítið tómur eftir þetta tímabil. Ég veit að það líður að lokum þessa ferils eins og allra. Ég hef ýtt því frá mér til þessa. Auðvitað er kannski möguleiki á því að maður taki fótboltatengt starf að sér, en ekkert endilega að maður fari í þjálfunina aftur," segir Bjarni.
Athugasemdir