Bjarni Jóhannsson var þjálfari Selfoss á liðnu tímabili en tókst ekki að halda liðinu uppi í Lengjudeildinni eftir að hafa unnið 2. deild tímabilið á undan.
Hann ákvað að taka ekki slaginn áfram á Selfossi og það gæti farið svo að tímabilið með Selfossi verði það síðasta á ferlinum. Bjarni ræddi við Fótbolta.net í vikunni.
                
                                    Hann ákvað að taka ekki slaginn áfram á Selfossi og það gæti farið svo að tímabilið með Selfossi verði það síðasta á ferlinum. Bjarni ræddi við Fótbolta.net í vikunni.
„Við fórum í viðræður eftir tímabilið og niðurstaðan varð sú að það væri rétt að ég myndi kveðja Selfoss að sinni. Við féllum og það verður einhver að taka höggið," segir Bjarni.
„Að mínu mati vorum við kannski ekki nógu vel mannaðir fyrir mót, lendum í allskyns skakkaföllum þegar á reynir og mönnuðum okkur kannski of seint upp. Vorum kannski ekki alveg nógu vel undirbúnir fyrir mótið og ég tel það höfuðástæðuna fyrir því að það fór sem fór."
„Auðvitað ber maður ábyrgð á ýmsum hlutum og þegar það fer svona þýðir ekki að benda á einhvern annan og kenna um. Það var örlítil værukærð í því að styrkja hópinn og svo skakkaföll sem við urðum fyrir á sumrinu. Þetta hjálpaðist allt að."
Er einhver leikur sem þú hugsaðir að þið hefðuð þurft að vinna?
„Það var fullt af leikjum, sérstaklega leikurinn við Fjölni og sá tímapunktur. Við töpuðum leikjunum við liðin sem við vorum að berjast við en gerum aftur á móti góða hluti á móti Þór og HK heima."
Svolítið tómur
Langar þig að halda áfram í þjálfun?
„Ég er svolítið tómur núna, en það fer að líða að lokum í þessu, ég var að klára mitt 36. meistaraflokkstímabil. Það er langur ferill miðað við þjálfara á Íslandi. Ég er að eldast og akkúrat núna er ég frekar á því að þetta sé komið nóg heldur en að halda áfram þó að ég sé ekki tilbúinn að gefa dánartilkynninguna strax."
Hvernig gerir þú upp tímann á Selfossi?
„Endirinn var frekar óskemmtilegur. Ég tek við liði sem hafði fallið úr Lengjunni og það hleypur eiginlega alveg gjörsamlega nýtt lið inn á völlinn og tímabilið í 2. deild var frábært hjá okkur. Við fengum yfir 50 stig og unnum Fótbolti.net bikarinn - sem er ein geggjaðasta viðbót við fótboltaflóruna á Íslandi."
„En því miður gekk alveg nógu vel núna, við náðum nokkrum frábærum leikjum en áttum dapra leiki inn á milli. Þegar lið fellur er það röð ákvarðana, hvort sem það er stjórnarmanna, þjálfara eða einhvers annars. Annað tímabilið setur skugga á gott fyrsta tímabil," segir Bjarni.
Bjarni segir fallið fara ofarlega á listann yfir mestu vonbrigði ferilsins.
„Ég er að falla í fyrsta skiptið, þetta eru ein mestu vonbrigðin á ferlinum, ekki spurning og ný reynsla," segir Bjarni sem var að ljúka sínu 36. tímabili sem þjálfari í meistaraflokki.
Seinni hluti viðtalsins verður birtur seinna í dag.
Athugasemdir
                                                                
                                                        
 
         
                                 
         
     
         
         
                                                                        
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                            
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                    
                        
        
         
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                        
                        
        
         
                    
        
         
                
