Ríkjandi Englandsmeistarar Liverpool hafa átt erfitt uppdráttar að undanförnu. Eftir frábæra byrjun á tímabilinu hefur liðið nú tapað fjórum deildarleikjum í röð og situr í 7. sæti, sjö stigum á eftir toppliði Arsenal.
Við hjá Fótbolti.net heyrðum í fjórum stuðningsmönnum Liverpool og lögðum fyrir þá eftirfarandi spurningar:
Hvert er vandamál Liverpool?
Hvað þarf að laga - hefur þú trú á að það gerist innan tíðar?
Eru nýju leikmennirnir vonbrigði?
Getur Liverpool unnið deildina?
Er farið að hitna undir Slot?
Magnús Þór Jónsson
Hvert er vandamál Liverpool?
Tvíþættur vandi finnst mér. Annars vegar að breytingarferlið frá leikstíl og leikaðferð Klopp yfir í hugmyndir Slot er erfiðara en ég reiknaði með, sérstaklega þegar kemur að varnarleik liðsins í heild og ákefð almennt. Leikmenn enn að aðlagast nýjum pælingum, sem er hitt atriðið því alltof margir lykilmenn eru að leika langt undir getu, þar spilar klárlega inní erfitt sumar vegna andláts Jota og líka ákveðnu róti á leikmannamarkaðnum bæði inn og út hjá liðinu. Í raun bara Szoboszlai og Gravenberch verið nálægt sínu besta í haust.
Hvað þarf að laga - hefur þú trú á að það gerist innan tíðar?
Fyrst og síðast verður að laga varnarleikinn sem er algerlega vonlaus þessa dagana. Til að vinna titla og ná árangri verður það að vera nokkuð solid að tvö mörk dugi til sigurs í flestum leikjum. Erfiðast er að horfa upp á að alltof mörg mörk koma upp úr föstum leikatriðum og einstaklingsmistökum, nokkuð sem á að vera einfalt að leysa en hendir eiginlega leik eftir leik. Þetta einfaldlega verður að breytast, með hverjum leiknum sem líður án þess að við snúum þessu við verður málið erfiðara og pressan meiri - sem hefur svo aukin áhrif.
Getur Liverpool unnið deildina?
Alls ekki eins og mál horfa við nú, þurfum harðan viðsnúning og treysta á að Arsenal fari að haltra. Þeir líta ansi vel út í dag og það er þeirra að tapa titlinum. Hins vegar eru í okkar liði hæfileikar til að vinna ansi marga leiki í röð...ef að blandan fer að virka.
Eru nýju leikmennirnir vonbrigði?
Alltof snemmt að dæma þá, hef trú á að allir þeir sem komu inn í liðið í sumar verði lykilmenn til framtíðar. Hins vegar eru þeir mjög haltrandi hingað til af ólíkum ástæðum. Meiðsli Frimpong stoppaði hann af, Mamardasvili og Kerkez á allt öðrum slóðum á sínum ferli en áður í miklu meira pressuumhverfi og þurfa að fá lengri tíma áður en þeir verða lykilmenn, Isak missti undirbúningstímabilið sem er mjög vont og mér finnst breytingarferlið sem ég tala um hér að ofan helst birtast í því að liðið hefur enn ekki fundið leið til að Wirtz virki, það verður auðvitað að gerast því hann er stórkostlegur leikmaður. Langsterkasta innkoman er Ekitike, sá hefur verið frábær.
Er farið að hitna undir Slot?
Það gefur auga leið að 5 töp í 6 leikjum hitar sæti undir öllum stjórum. Framundan að næsta landsleikjahléi eru leikir við hörkulið, Villa og Real Madrid heima og City úti. Hann veit sjálfur að hann er búinn að koma sér í það að við einfaldlega verðum að sækja stig í þessa leiki. Ef það tekst ekki þá er alveg ljóst að hitinn verður gríðarlegur. Mér fannst hans fyrsta tímabil gott, var sáttur við leikmannakaupin í sumar og finnst hann hafa góða áru og mikinn fótboltaheila.
Hins vegar er þetta úrslitabransi og hver leikurinn í röð þar sem við komum inn í leikinn án þess að vera tilbúnir og niðurstöðurnar eru engin stig þá verður vafinn í kollinum stærri. Ástandið nú er óásættanlegt hjá meistaraliði sem eyddi 400 milljónum punda í leikmannakaup í sumar. Það vita allir...og Slot og co mest held ég.
Magnús Haukur Harðarson
Hvert er vandamál Liverpool?
Varnarleikur liðsins er í molum bæði í föstum leikatriðum sem og þegar liðið tapar boltanum að þá er enginn hvíldarvörn til staðar.
Hefur þú trú á því að gengið batni innan tíðar?
Fulla trú á að það gerist en það þarf að gerast hratt því ekki viljum við að Arsenal hlaupi með titilinn.
Eru nýju leikmennirnir vonbrigði?
Að spila í Liverpool treyjunni er ekkert grín enda besti klúbbur í heimi. Milos þarf smá svigrúm gefa honum nokkra leiki á bekknum aðeins að læra inn á þetta. Hugo hefur verið sterkur og hefði hann átt að fá meira traust í byrjunarliðinu á kostnað Isak en það þurfti svosem að koma honum af stað. Florian Wirtz er að gera margt rétt og þetta á eftir að smella get lofað ykkur því.
Getur Liverpool unnið deildina?
Þetta er svona 50/50 þessa stundina.
Er farið að hitna undir Slot?
Það er lár hiti en hann gæti hækkað ansi hratt ef spilamennskan fer ekki að batna.
Heiðar Austmann
Hvert er vandamál Liverpool?
Vandamál Liverpool getur verið margþætt án þess þó að vita það 100%. Við stuðningsmenn og konur getum einungis getið í eyðurnar út frá því hvernig við sjáum klúbbinn út á við. Miklar og stórar breytingar á milli tímabila er auðvitað stór factor. Það er nánast hálft nýtt byrjunarlið komið inn í klúbbinn og það var við því að búast að það gæti tekið tíma að slípa saman liðið, að menn færu að kunna betur inná hvern annan og treysta hvorum öðrum nánast í blindni eins og var þegar Klopp var með liðið uppá sitt besta.
Varnarleikurinn hefur ekki verið nægilega sannfærandi það sem af er tímabili og liðið er að gefa of mörg auðveld mörk. Hvað því veldur getur verið ýmislegt en heildarsvipur liðsins er breyttur frá því í fyrra og það sjá flestir ef ekki allir sem fylgjast með liðinu. Það vantar betri heildarmynd á pressu liðsins, það vantar betri heildarmynd á varnarleik liðsins og það vantar einhvern veginn aðeins upp á að allir séu að stíga sömu spor og það í takt.
Annað sem hefur verið rætt sem gæti verið að hafa áhrif á liðið er fráfall Diego Jota. Maður sá það í upphafi leiktíðar að Jota var ekki bara dýrkaður og dáður á Merseyside heldur voru fótboltamenn og konur út um allan heim að votta honum virðingu sína með því að taka klassískt fagn frá honum þegar hann skoraði. Maður getur rétt svo ímyndað sér hvaða áhrif þetta hefur haft á leikmenn LFC sem voru að missa félaga sem var í raun einn af fjölskyldunni.
Svona hræðilegur atburður er ekkert bara hristur af sér og áfram gakk! Það tekur langan tíma að komast yfir svona hörmungar atburð og við sem styðjum liðið megum ekki bara líta á leikmenn sem einhver vélmenni og ætlast hreinlega til að þeir spili sinn leik og þetta hafi ekki áhrif á þá. Þetta mun taka tíma og þetta mun fylgja sumum leikmönnum lengur en öðrum og mögulega hafa áhrif á hvernig þeir spila.
Margir af reyndari leikmönnum LFC eru heldur ekki komnir almennilega í gang og ber þar að nefna Salah, VVD, MacAllister og fleiri. Bakverðir liðsins hafa líka verið gagnrýndir mjög mikið fyrir hvað þeir hafa verið að spila undir getu en það kemur með kalda vatninu.
Liðið er að hiksta aðeins núna en það er bara spursmál hvenær þeir detta í gang. Verður fyrr en síðar. Vittu til!
Hvað þarf að laga - hefur þú trú á að það gerist innan tíðar?
Það þarf að laga varnarleikinn fyrst og fremst. Sókn vinnur leiki en vörn vinnur titla. Það þarf að fá betri heildar varnarbrag á liðið og finnst mér það vera það fyrsta sem þarf að laga á æfingasvæðinu. Fá betri svip á varnarleik liðsins. Mögulega þýðir það að við þurfum að festa eina sexu niður til að verja vörnina eða breyta um skipulag á miðjunni en eitthvað þarf að breytast.
Það gengur bara ekki til lengdar að vera fá á sig 1-3 mörk í hverjum leik það sér það hver heilvita manneskja. Frábært að það sé keyptir menn til að breyta sóknarleiknum og skora mörk en það þarf að huga að vörninni. Þetta lagast fljótt og við munum sjá breytingu innan skamms. Breytingu sem felur í sér heildrænni varnarleik.
Eru nýju leikmennirnir vonbrigði?
Kannski erfitt að nota orðið "vonbrigði". Sá sem ég er kannski mest svekktur með í augnablikinu er Miloz Kerkez. Hann hefur átt erfitt uppdráttar og er að gera mikið af barnalegum mistökum sem ættu ekki að sjást hjá manni sem hefur spilað í PL í eins langan tíma og hann hefur gert. Hann er ungur og hann er ennþá að læra.
Breytt kerfi, breytt færsla á stöðunni hans og fleira kemur til með að lagast en það eru litlu hlutirnir sem eru örlítið að angra mig. Sendingar, staðsetningar og hlaup eru ekki alveg eins og maður átti von á að sjá frá honum en hann kemur til. Ég hef nákvæmlega engar áhyggjur af Isak, Wirtz eða Ekitike. Þeir eru topp spilarar og munu sína sitt rétta andlit þegar liðið er farið að tikka betur saman.
Allir þeir sem hafa farið hamförum á netinu munu þurfa að éta heila sokkaskúffu þegar þessir leikmenn eru farnir af stað af einhverju viti. Svo er líka erfitt að gera mörgum stuðningsmönnum til geðs og það er bara eins og það er.
Getur Liverpool unnið deildina?
Já. Liðið er að hiksta um þessar mundir en ég hef fulla trú á að leikmenn finni fyrra form og fari að sýna sitt rétta andlit. Vonandi verður bara ekki of langt í efsta lið þegar það gerist en maður heldur alltaf í trúna og þangað til það er tölfræðilega ómögulegt að vinna titilinn þá er maður bjartsýnn. Maður hefur séð það svartara, lesist MIKLU svartara þannig að þetta er bara gönguferð í garðinum núna. Tölum saman í janúar og ef liðið er enn að ströggla þá mögulega breyti ég um skoðun, þangað til er það bara YNWA og áfram Liverpool - ALLTAF
Er farið að hitna undir Slot?
Nei ekki farið að hitna undir honum. Hann er meistari og færði LFC þann tuttugasta. Það er ekki farið að hitna undir kallinum en ef það heldur áfram að ganga illa þá fer fólk að spyrja spurninga. Hann er samt pikkfastur í starfi eins og er.
Kristján Atli Ragnarsson
Hvert er vandamál Liverpool?
Í stuttu máli þá held ég að félagið hafi reynt að gera of mikið í einu í sumar. Það er að koma í ljós. Þeir framlengdu við Van Dijk og Salah í vor og héldu að það myndi tryggja stöðugleika á meðan nýir leikmenn yrðu sóttir í "nýtt" lið. En svo deyr Diogo Jota í bílslysi og leikmennirnir sem höfðu verið þarna máttu þola mjög erfitt sumar sem háir þeim bersýnilega í upphafi leiktíðar, sem hefur boðið upp á óvissu og óstöðugleika fyrir allan leikmannahópinn. Það er erfitt að skamma nýju leikmennina þegar Salah, Van Dijk, Konaté, Mac Allister, Bradley, Gakpo og fleiri slíkir eru að spila undir getu. Meiðsli hafa heldur ekki hjálpað, það væri gott að hafa Alisson í markinu núna og Mac Allister missti af öllu undirbúningstímabilinu, og hefur ekkert komist í gang ennþá.
Hvað þarf að laga - hefur þú trú á að það gerist innan tíðar?
Ég er sem betur fer ekki stjóri Liverpool en ég myndi kannski ráðleggja Slot að fara "back to basics". Finndu þitt lið, leggðu áherslu á að hætta að fá á ykkur svona mörg mörk snemma í leikjum, og haltu þig við það. Verið leiðinlegir og varnarsinnaðir í mánuð. Stöðvið blæðinguna. Sömu fjórir aftast, sömu þrír á miðjunni, bara hættið að vera svona opnir og í mikilli kaos aftast. Þetta lið er að skora mörk en það vinnast aldrei leikir ef þú þarft alltaf að skora að minnsta kosti þrjú til að vinna.
Ég hef trú á þessu liði. Þeir eru ríkjandi meistarar og bættu við sig mjög flottum leikmönnum í sumar. Aðstæðurnar eru að gera þeim erfitt fyrir en þetta lið mun komast á beinu brautina fyrr eða síðar. Spurningin er bara hvort það verður of seint upp á að vinna deildina (gæti nú þegar verið of seint) eða Meistaradeildina. Þeir mega ekki við fleiri skakkaföllum eins og stendur.
Eru nýju leikmennirnir vonbrigði?
Nei. Ekitike hefur litið stórvel út og það er ekki hægt að dæma aðra. Kerkez og Isak virðast týndir en þeir yrðu að vera ofurmannlegir til að láta ástandið á félaginu eftir þetta sumar ekki á sig fá. Í alvöru, hvernig á Kerkez að geta betur þegar Van Dijk og Gakpo eru í lægð sitt hvorum megin við hann? Við vitum að Isak þarf tíma. Helstu vonbrigðin eru kannski meiðslin á Frimpong, sem þurfti virkilega á því að halda að geta verið heill og komist í rútínu. Ef þessir leikmenn eru ekki komnir í gang eftir hálft ár skal ég örvænta, en það er ekki þeirra verkefni að stíga upp og leiða liðið til velgengni þetta tímabilið. Það skrifast á Slot og reynsluboltana.
Getur Liverpool unnið deildina?
Já. Tölfræðilega er ennþá séns. Ég miða alltaf við að þegar lið eru búin að gefa a.m.k. tveimur keppinautum 7+ stiga forskot (sem tekur þrjá leiki að brúa, það er ágætis viðmið) þá er þetta orðið mjög erfitt, en í dag er bara Arsenal með þetta forskot og þeir hafa tilhneigingu til að fara á taugum ef þeir eru efstir um áramót. Þannig að það er allt galopið. En ef næstu tveir tapast þá gæti þetta verið farið snemma í nóvember...
Er farið að hitna undir Slot?
Hann er undir pressu, það er engin spurning. Auðvitað vinna menn sér inn trú og þolinmæði með því að vinna deildina á sínu fyrsta tímabili, en á móti kemur að það eru allir að tala um að hann hafi unnið með lið Klopp og sé núna að klúðra með sitt eigið lið. Það er að vissu leyti ósanngjarnt, eins og ég útskýrði í fyrsta svari þá eru harmleikur, meiðsli og lægðir lykilmanna að gera honum erfitt fyrir.
En hann á líka skilið gagnrýni fyrir að hafa verið út um allt með liðsvalið sitt og leikskipulag frá viku til viku. Hann þarf að finna sinn eigin stöðugleika og hætta þessu hringli, og þá geta leikmennirnir hans vonandi gert það sama líka. Hann er undir pressu en allt tal um brottrekstur fyrir jól er galið. Ef hann er hins vegar ekki búinn að finna út úr þessu á vormánuðum...




