Hlín Eiríksdóttir átti annað mark Íslands í 3-0 sigri þeirra á Norður-Írlandi í kvöld í seinni viðureign þeirra í umspilinu um sæti í A-deild Þjóðardeildarinnar
Aðspurð um fyrstu viðbrögð eftir leik svaraði Hlín Eiríksdóttir
„Bara gleði og hamingja, við náðum markmiðum okkar úr þessum glugga sem var að vinna þessa tvo leiki og halda sætinu okkar í A-deildinni. Það tókst og við spiluðum að mörgu leyti vel í dag, þannig að ég er bara sátt."
Lestu um leikinn: Ísland 3 - 0 Norður-Írland
„Við náðum að setja upp innkast eins og við erum búnar að æfa, þetta var beint af æfingasvæðinu eiginlega. Náðum flikkinu á fyrsta boltann og hann lenti hjá mér seinni boltinn og ég náði að skila honum í netið sem var mjög gott."
Nokkrir ungir leikmenn hafa verið að koma inn í hópinn hvernig er það?
„Geggjað, þær eru mjög fljótar að aðlagast og komast inn í hópinn, algjörlega ófeimnar innan og utan vallar. Eru bara að styrkja hópinn mjög mikið þannig bara jákvætt."
Veðrið setti ansi stórt strik í reikninginn og þurfti að fresta leiknum hvernig hélt hópurinn sig saman og hélt fókus?
„Við kíktum í balletkennslu í gær í staðinn fyrir æfingu en nei það var ekkert mál þannig séð fyrir okkur. Við einbeitum okkur að því sem við getum stjórnað, veðrið er svo sannarlega ekki eitt af því."
„Ég myndi nú segja að hópurinn hafi verið ansi þéttur fyrir en þetta veikir allavega ekki hópinn að fá einn aukadag saman. Held að ég tali fyrir okkur allar 23 í þessum hóp að það er bara ógeðslega gaman að vera saman og við kvörtum ekki yfir neinum aukadegi."
Frestunin hafði töluverð áhrif á leikmenn og voru margar sem þurftu að fresta flugum sínum út, hefur það áhrif á Hlín og hennar félagslið?
„Ég mæti einum degi seinni tilbaka í mitt félagslið og auðvitað stjórna ég því ekki hvernig þjálfararnir þar bregðast við því, það verður að koma í ljós en vonandi ekki."























