Það hefur orðið mjög undarleg þróun á málum í enska utandeildabikarnum þar sem félagslið eru oft að gera skiptingar á fyrstu mínútum leikja.
Til að mynda gerði Robbie Savage, fyrrum leikmaður Blackburn Rovers og velska landsliðsins og núverandi þjálfari Forest Green í ensku utandeildinni, fjórfalda skiptingu á fyrstu mínútu í bikarleik gegn U21 liði Wolves.
„Einbeitingin verður að vera á deildarkeppninni. Bikarkeppnin er fyrir ungu leikmennina til að spreyta sig," sagði Savage þegar hann var spurður út í skiptingarnar. „Þetta er svolítið pirrandi útaf þegar maður notar fjórar skiptingar á fyrstu mínútu þá hefur maður bara eina skiptingu eftir út leikinn. Frá mínu sjónarhorni er þessi reglugerð skaðleg."
Hérna var Savage að ræða um reglugerð sem segir að félagslið í utandeildarbikarnum verði að hafa að minnsta kosti fjóra leikmenn í byrjunarliðinu sem byrjuðu síðasta deildarleik eða munu byrja í næsta deildarleik. Þetta getur komið í veg fyrir að ungir leikmenn, sem fá ekki mínútur með aðalliðinu í deild, fái að spreyta sig.
Rochdale og Scunthorpe eru meðal félagsliða sem hafa verið að skipta leikmönnum af velli snemma í bikarleikjum til að gefa fleiri ungum leikmönnum tækifæri heldur en reglurnar gefa leyfi fyrir.
Athugasemdir




