Heimild: Thor Sport
Þór Akureyri hefur staðfest ráðningu á Eiði Benedikt Eiríkssyni sem nýjum aðstoðarþjálfara fyrir meistaraflokk karla.
19.10.2025 12:00
Eiður Ben verður aðstoðarmaður Sigga Höskulds
Eiður Ben gerir tveggja ára samning við Þór og verður Sigurði Heiðari Höskuldssyni aðalþjálfara til halds og trausts.
Eiður kemur til Þórs úr röðum Breiðabliks þar sem hann hefur starfað sem aðstoðarþjálfari síðustu tvö ár, en á ferlinum hefur hann meðal annars stýrt kvennaliði Fylkis, karlaliði Þróttar Vogum til skamms tíma og verið aðstoðarþjálfari hjá KA.
Hann þekkir því vel til á Akureyri og á í góðu sambandi við Sigga Höskulds eftir að þeir voru saman á UEFA Pro þjálfaranámskeiði.
Þór vann Lengjudeildina í sumar og leikur því í Bestu deildinni á næsta ári, í fyrsta sinn í tólf ár.
Eiður mun samhliða aðstoðarþjálfarastarfinu vera yfirmaður leikmannaþróunar yngstu leikmanna meistaraflokks og verður þar með í lykilhlutverki í afreksstarfi hjá 2. og 3. flokki.
„Það er mikil tilhlökkun að hefja störf hjá Þór. Við Siggi þekkjumst vel, og ég er spenntur að vinna með þjálfarateyminu og stjórninni í verkefni sem félagið hefur ekki tekist á við í langan tíma,“ segir Eiður.
„Það sem heillaði mig mest við félagið og liðið er sterkt hugarfar og trúin á að ekkert sé ómögulegt. Undanfarin ár hafa margir frábærir leikmenn komið upp úr unglingastarfi Þórs og spilaði liðið skemmtilegan fótbolta í sumar ásamt því að úrslitin fylgdu með. Það verða algjör forréttindi að fá að vinna með öllu því frábæra fólki sem kemur að liðinu á einn eða annan hátt.“
Athugasemdir




