fim 30. október 2025 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Maresca: Vandræðalegt að fá svona rauð spjöld á sig
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Enzo Maresca svaraði spurningum eftir sigur Chelsea gegn Wolves í deildabikarnum og var ósáttur með rauða spjaldið sem Liam Delap fékk í sínum fyrsta leik eftir meiðsli.

Delap kom inn af bekknum og tókst að krækja sér í tvö gul spjöld á þeim tæpa hálftíma sem hann var á vellinum. Fyrra spjaldið fékk hann fyrir að ýta í Yerson Mosquera að óþörfu og í seinna skiptið óð hann alltof harkalega í Emmanuel Agbadou. Þessi tvö atvik áttu sér stað með sjö mínútna millibili.

Chelsea leiddi 0-3 í hálfleik en Úlfarnir minnkuðu muninn niður í eitt mark áður en Delap lét reka sig útaf. Honum til lukku tókst tíu liðsfélögum hans að standa uppi sem sigurvegarar, lokatölur 3-4 fyrir Chelsea.

Rauða spjaldið þýðir að Delap verður í leikbanni fyrir úrvalsdeildarleikinn gegn Tottenham um helgina og er Joao Pedro tæpur.

„Þetta var heimskulegt brot, þetta er eitthvað sem við getum komist hjá að gera. Við fengum þrjú léleg mörk á okkur auk þess að fá heimskulegt rautt spjald sem var algjör óþarfi. Eftir fyrra gula spjaldið sagði ég örugglega fjórum eða fimm sinnum við hann (Delap) að halda rónni," sagði Maresca.

„Vandinn er að Liam er leikmaður sem er að spila leikinn fyrir sjálfan sig, hann á í erfiðleikum með að taka mark á fólki í kringum sig."

Þetta var sjötta rauða spjaldið sem Chelsea fær í síðustu níu leikjum, en Maresca sjálfur á eitt rauðu spjaldanna sem hann fékk í dramatískum sigri gegn Liverpool fyrir síðasta landsleikjahlé.

Auk þess að leiða kappið í rauðu spjöldunum er Chelsea það félag sem hefur fengið flest gul spjöld dæmd á sig á síðustu þremur árum í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég skil sum rauðu spjöldin sem er erfitt að komast hjá eins og gegn Brighton eða Manchester United, en við eigum ekki að fá ákveðin önnur rauð spjöld á okkur eins og gerðist í leikjunum gegn Nottingham Forest og í dag.

„Rauða spjaldið sem við fengum á okkur í dag er vandræðalegt útaf því að þetta eru tvö gul spjöld á 5 eða 10 mínútna kafla. Bæði spjöld sem við hefðum hæglega getað komist hjá því að fá á okkur. Þetta er ekki nógu gott."

Athugasemdir
banner