Mikel Arteta þjálfari Arsenal varar við því að félagslið gætu dregið sig úr ákveðnum keppnum vegna of mikils leikjaálags.
Hann er langt frá því að vera sá fyrsti til að tala um alltof mikið leikjaálag í fótboltaheiminum en Rodri, miðjumaður Manchester City og spænska landsliðsins, varaði einnig við þessu í september í fyrra. Mánuði síðar sleit hann krossband sem hélt honum frá keppni út tímabilið.
Arteta talar um alltof mikið leikjaálag í sambandi við viðureign Arsenal gegn Crystal Palace í 8-liða úrslitum deildabikarsins. Liðin mætast annað hvort þriðjudaginn 16. desember eða miðvikudaginn 17. desember, sem þýðir að Palace þarf að spila þrjá leiki á fimm dögum.
Palace spilar deildarleik gegn Man City sunnudaginn 14. desember og á svo leik við Kuopion Palloseura í Sambandsdeildinni fimmtudaginn 18. desember.
„Allar ákvarðanir varðandi leikjaskipulag ættu að taka mið af tveimur aðalatriðum: heilsu leikmanna og vilja stuðningsmanna. Þetta eru tvö langstærstu atriðin, allt annað skiptir miklu minna máli. Þetta er prinsipp sem við ættum aldrei að gleyma, það er það eina sem ég hef að segja um þetta," sagði Arteta, en eins og staðan er í dag ráðast ákvarðanir um leikjaskipulag aðallega af sjónvarpstekjum.
„Ég vona að þetta fari ekki á það stig að félög þurfi að draga sig úr keppnum vegna of mikils leikjaálags. Ég veit að við komumst ekki á það stig ef við höfum atriðin sem ég nefndi áðan að leiðarljósi.
„Ef við gerum það ekki og hunsum viðvörunarmerkin, þá getur hvað sem er gerst í framtíðinni."
Liverpool er meðal enskra félagsliða sem hafa mætt til leiks með unglingalið í útsláttarkeppni deildabikarsins vegna mikils leikjaálags. Eitt frægasta dæmið er frá því í desember 2019, þegar aðallið Liverpool var á leið til Katar að keppa í HM félagsliða og neyddist félagið því til að mæta til leiks með unglingaliðið sitt gegn Aston Villa í 8-liða úrslitum deildabikarsins.
Athugasemdir


