Leiknir R. er enn í þjálfaraleit fyrir komandi tímabil í Lengjudeildinni. Ágúst Gylfason stýrði liðinu seinni hluta sumars en gaf það út að hann væri hættur í þjálfun þegar tímabilinu lauk.
Ýmsar sögusagnir hafa gengið um hverjir væru mögulega að taka við starfinu en nöfn sem eru sögð á borðinu eru þeir Jón Guðni Fjóluson, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Brynjar Björn Gunnarsson, Srdjan Tufegdzic og Haraldur Árni Hróðmarsson.
Fótbolti.net sló á þráðinn til Oscars Clausen, formanns Leiknis, og spurði hann um stöðu mála í Breiðholti.
„Þetta er bara allt í vinnslu, það er ekkert að frétta. Ég segi eins og ég sagði við kollega þinn í sumar: Ég er ekki að fara þjálfa þetta. Vonandi skýrist þetta allt vonandi eftir fljótlega.“
„Við höfum hitt einhverja og þetta er allt í vinnslu. Þetta skýrist þegar við erum búnir að hitta rétta manninn fyrir okkur.“
Liðið byrjar að æfa, eins og flest lið í Lengjudeildinni, í næstu viku.
„Auðvitað viljum við klára þetta sem fyrst. En við ætlum ekkert að ráða Magga á verkstæðinu til þess að klára þetta, við þurfum að ráða rétta manninn,“ sagði Oscar að lokum.



