Tottenham vill McTominay - Napoli reynir við Mainoo í janúar - Villa í viðræðum við Rogers um nýjan samning
banner
   mið 29. október 2025 21:51
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: Albert og Mikael halda áfram að tapa
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Þremur síðustu leikjum kvöldsins var að ljúka í ítölsku deildinni þar sem stórveldi Inter sýndi gæðin sín og fór létt með Albert Guðmundsson og félaga í Fiorentina, sem eru afar óvænt í botnbaráttunni á upphafi tímabils.

Inter var sterkari aðilinn allan leikinn en David de Gea hélt gestunum frá Flórens á lífi. Í síðari hálfleik skiptu lærisveinar Cristian Chivu um gír og náðu forystunni með laglegu skoti utan teigs frá Hakan Calhanoglu. Í þetta sinn kom De Gea engum vörnum við.

Petar Sucic tvöfaldaði forystuna fimm mínútum síðar eftir magnað einstaklingsframtak þar sem hann lék alltof auðveldlega á nokkra varnarmenn Fiorentina áður en hann skoraði. Ange-Yoan Bonny kom inn af bekknum á lokakaflanum og fékk dæmda vítaspyrnu eftir að brotið var augljóslega á honum innan teigs. Calhanoglu fór að sjálfsögðu á punktinn og skoraði. Lokatölur 3-0.

Albert lék fyrstu 63 mínútur leiksins og fór af velli skömmu fyrir opnunarmark Calhanoglu. Fiorentina er enn án sigurs og aðeins með 4 stig eftir 9 umferðir, á meðan Inter er í þriðja sæti með 18 stig.

Á sama tíma lék Mikael Egill Ellertsson allan leikinn í liði Genoa sem tapaði á heimavelli gegn nýliðum Cremonese. Jamie Vardy lék allan leikinn í liði Cremonese en Federico Bonazzoli skoraði bæði mörkin í 0-2 sigri.

Genoa er aðeins með þrjú stig eftir þetta tap á meðan Cremonese er óvænt búið að safna fjórtán stigum, einu stigi minna heldur en Juventus og einu stigi meira en Atalanta.

Bologna og Torino gerðu að lokum markalaust jafntefli í bragðdaufri viðureign.

Inter 3 - 0 Fiorentina
1-0 Hakan Calhanoglu ('66 )
2-0 Petar Sucic ('71 )
3-0 Hakan Calhanoglu

Genoa 0 - 2 Cremonese
0-1 Federico Bonazzoli ('3 )
0-2 Federico Bonazzoli ('49 )

Bologna 0 - 0 Torino
Athugasemdir