Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   fim 08. maí 2008 07:50
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 2.deild karla: 9. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Guðný
Mynd: Fótbolti.net - Hilmar Valur
Mynd: Austurglugginn - Gunnar
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-9 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í níunda sætinu var Völsungur sem fékk 73 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Völsung


9. Völsungur
Búningar: Græn treyja, hvítar buxur, grænir sokkar.
Heimasíða: http://www.volsungur.is og http://www.123.is/volsungur

Völsungi er spáð 9. sætinu í 2. deild af fyrirliðum og þjálfurum deildarinnar og miðað við þær breytingar sem orðið hafa á liðinu ætti slíkt að vera ásættanlegt fyrir félagið. Eins og áður segir eru breyttir tímar á Húsavík þetta árið og nú verða yngri leikmenn liðsins að taka við keflinu.

Félagið hefur tekið þá stefnu að byggja upp nýtt lið og leyfa heimamönnunum að spila og slíkt er ávallt virðingarvert. Til þess að þróa þessar ungu sálir réð félagið goðsögnina Jónas Hallgrímsson sem þjálfara liðsins. Róbert Skarphéðinsson hætti þjálfun liðsins en hann var duglegur við að gefa yngri leikmönnum liðsins tækifæri. Liðið heldur áfram að yngjast undir stjórn Jónasar og verður gaman að sjá hverju hann nær út úr leikmönnum liðsins.

Einhverjar breytingar hafa orðið á liðið Völsungs en liðið endurheimt Björn Hákon Sveinsson en hann hefur verið liðinu afar mikilvægur í gegnum tíðina. Lengi leit út fyrir að hann myndi vera í Danmörku og því brugðu þeir á það ráð að fá Ágúst Bjarna Garðarsson frá Val í markið. En hann hefur snúið aftur á Hliðarenda og það er feykilega mikilvægt fyrir félagið að fá Björn Hákon sem mun leika stórt hlutverk í þessu unga liði í sumar. Einnig hefur liðið fengið nokkra leikmann frá Snerti og Boltafélagi Húsavíkur. Allt traust verður lagt á hina ungu leikmenn liðsins sem verða að sýna það og sanna að þeir séu traustsins verðir.

Það er kannski engin risa skörð sem menn skilja eftir sig sem hafa yfirgefið félagið en vissulega var slæmt að missa þá Guðmund Óla Steingrímsson og Boban Jovic. Guðmundur ákvað að gera eitthvað sem seint verður talið vinsælt á Húsavík og gekk í raðið KA á meðan Boban Jovic söðlaði um eftir nokkur ár með liðinu og mun hann leika með Selfyssingum á komandi leiktíð.

Guðmundur Sigurður Jósteinsson gekk svo einnig í raðir Magna frá Grenivík og því hefur liðið misst í það minnsta þrjá leikmenn sem léku megnið af leikjum liðsins á síðustu leiktíð. Grétar Þór Björnsson, Jóhannes Gunnarsson og Róbert Ragnar Skarphéðinsson léku einnig stóran hluta leikja Völsungs í fyrra en þeir verða ekki með liðinu í sumar. Árangur liðsins í Lengjubikarnum í ár var í lakara lagi og má segja að uppskeran hafi verið ansi rýr. Aðeins fjögur stig í fmm leikjum sem setti liðið á botn riðilsins.

Það verður gaman að sjá hvað hið unga liðs Völsungs gerir í sumar. Stefna félagsins er einföld og það er að byggja á uppöldum leikmönnum. Það er ávallt gaman að sjá slíkt og ætti félagið að eiga nóg af efnilegum strákum því í gegnum tíðina hafa komið margir frábærir leikmenn í gegnum starfið hjá Völsungi. Má þar helst nefna menn eins og Baldur Ingimar Aðalsteinsson, Pálma Rafn Pálmason, Jónas Grana Garðarsson og þetta er aðeins brot af þeim fjölmörgu öflugu leikmönnum sem hafa komið frá Húsavík. Það er því spennandi sumar í vændum og verður virkilega gaman að sjá hvernig þessir ungu leikmenn munu þroskast og dafna undir stjórn hins gamalreynda þjálfara, Jónasar Hallgrímssonar.

Styrkleikar: Það verður ákveðin gredda í liðsmönnum Völsungs í sumar. Baráttan, krafturinn og viljinn verður þeirra helsta vopn í sumar. Ungt lið sem gæti komist langt á samheldninni sem einkennir oft liðin úti á landi.

Veikleikar: Það vill oft verða þannig með lið sem byggja á ungum leikmönnum að mótlæti getur oft farið ansi illa með menn. Það er ljóst að Jónas Hallgrímsson þarf að nota alla sína reynslu til að halda sínum leikmönnum við efnið og passa það að menn haldi haus ef illa árar í sumar.

Lykilmenn: Björn Hákon Sveinsson, Aron Bjarki Jósepsson, Sreten Djurovic.

Þjálfari: Jónas Hallgrímsson. Að margra mati er Jónas Hallgrímsson goðsögn í lifanda lífi á Húsavík. Hann var sjálfur öflugur leikmaður og munu eflaust nokkrir leikmenn þurfa að hlaupa fjallið í sumar ef Jónas er samur við sjálfan sig.

Komnir: Davíð Þórólfsson frá Boltafélagi Húsavíkur, Einar Már Þórólfsson frá Snerti
Farnir: Boban Jovic í Selfoss, Guðmundur Óli Steingrímsson í KA, Guðmundur Sigurður Jósteinsson í Magna, Jónas Halldór Friðriksson til Magna, Jóhannes Gunnarsson hættur, Grétar Þór Björnsson hættur, Róbert Ragnar Skarphéðinsson hættur.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. Völsungur 73 stig
10. ÍH 67 stig
11. Magni 59 stig
12. Hamar 30 stig
Athugasemdir
banner
banner