Dembele til Englands - Ramsdale orðaður við Bayern - Alexander-Arnold ætlar að framlengja við Liverpool
   lau 03. júní 2023 10:11
Elvar Geir Magnússon
Tíu fullar rútur af stuðningsmönnum Lyngby
Freyr Alexandersson er þjálfari Lyngby.
Freyr Alexandersson er þjálfari Lyngby.
Mynd: Getty Images
Kolbeinn Finnsson.
Kolbeinn Finnsson.
Mynd:
Lokaumferðin í neðri hluta dönsku úrvalsdeildarinnar er spiluð í dag og þá ræðst það hvort Íslendingalið Lyngby nær að bjarga sér frá falli. Liðið heimsækir Horsens en leikurinn hefst 12 að íslenskum tíma.

Lyngby, Horsens og Álaborg eru öll með 27 stig fyrir lokaumferðina, í neðstu sætum, en tvö af þeim munu fara niður.

Lyngby heimsækir Horsens, sem er með Aron Sigurðarson innanborðs, á meðan Álaborg leikur gegn Silkeborg. Ef Lyngby vinnur þá heldur liðið sér uppi ef Álaborg tekst ekki að vinna sinn leik. Jafntefli dugar Lyngby ef Álaborg tapar.

Freyr Alexandersson þjálfar Lyngby og Kolbeinn Finnsson og Sævar Atli Magnússon eru í leikmannahóp dagsins. Alfreð Finnbogason er hinsvegar fjarverandi vegna leikbanns.

Lyngby gekk mjög illa fyrri hluta tímabils og flestir búnir að bóka fall liðsins. En með góðri frammistöðu seinni hlutann er liðið í möguleika á að halda sér í deild þeirra bestu í Danmörku.

„Ég tel að allir hjá félaginu hefðu tekið þessari stöðu ef hún hefði boðist okkur í vetur. Við höfum haldið í trúna alla leið og talið að við ættum möguleika. Þó við þurfum að treysta á önnur úrslit þá erum við í stöðu sem við gátum leyft okkur að dreyma um í vetur," segir Freyr við heimasíðu félagsins.

Það má búast við jöfnum og spennandi leik í Horsens en átta síðustu viðureignir liðanna hafa endað með jafntefli eða sigri annars liðsins með eins marks mun. Það er gríðarlegur áhugi hjá stuðningsmönnum Lyngby og uppselt er í tíu rútur sem ferðast í leikinn.

„Ég er gríðarlega stoltur af þeim stuðningi sem við fáum í Horsens. Félaginu hefur tekist að sameina allt bæjarfélagið og við erum með bestu mætinguna á þessu tímabili í sögu félagsins. Við gerum allt sem við getum til að gera stuðningsmenn ánægða," segir Freyr.
Athugasemdir
banner