Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   fös 15. maí 2020 08:00
Magnús Már Einarsson
Fjórfaldur munur á þjálfaralaunum meistaraflokka Stjörnunnar
Leikmenn karlaliðs Stjörnunnar fengu tæplega 84 milljónir króna í laun í fyrra.
Leikmenn karlaliðs Stjörnunnar fengu tæplega 84 milljónir króna í laun í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Fréttablaðið greinir frá því í dag að tæplega fjórfaldur munur var á heildarlaunum þjálfarateymis meistaraflokks karla og kvenna hjá Stjörnunni á síðasta ári.

Ársskýrsla félagsins var lögð fram á stjórnarfundi á miðvikudag þar sem félagið sundurliðaði deildir og kyn en Fréttablaðið birtir upplýsingar úr skýrslunni í dag.

„Stjarnan greiddi leikmönnum sínum í Pepsi Max deild karla tæpar 84 milljónir króna í laun og verktakagreiðslur fyrir síðasta sumar. Heildarkostnaður við leikmenn liðsins nam alls 95 milljónum. Þá taldi kostnaður vegna þjálfara liðsins um 40 milljónum króna. Meistaraflokkur karla tapaði um 16 milljónum króna á síðasta ári," segir í frétt Fréttablaðsins.

„Konurnar í meistaraflokki Stjörnunar fá varla brotabrot af því sem karlarnir fá. Heildarkostnaður við meistaraflokk kvenna nam 13 milljónum og greiddi félagið leikmönnum sínum 5,5 milljónir í laun og dró launakostnaðinn saman um sjö milljónir. Þá var þjálfarakostnaðurinn rétt rúmar 11 milljónir. Konurnar voru réttu megin við núllið annað árið í röð."

Í Fréttablaðinu kemur fram að um 10 milljón króna hagnaður var af barna og unglingastarfi Stjörnunnar á síðasta ári. Í skýrslu sem Stjarnan skilaði til KSÍ vegna leyfiskerfisins sagði að knattspyrnudeildin hefði skilað fimm milljóna króna tapi.

Harpa Þorsteinsdóttir, fyrrum leikmaður Stjörnunnar og núverandi bæjarfulltrúi í Garðabæ, tjáði sig um málið í samtali við Fréttablaðið.

„Auðvitað er sláandi að sjá þetta svona svart á hvítu þennan launamun og einnig launakostnað í þjálfaramálum. Það er munur á rekstri deildanna og eru kannski eðlilegar skýringar á því að einhverju leiti, en það er samt þessi munur og viðhorfið gagnvart kvennaboltanum sem skiptir miklu máli í öllu starfinu. Ég tel að svona gagnsæi sé gott og jákvætt að fólk spái aðeins í þessu þegar það horfir á stóru myndina," sagði Harpa.
Athugasemdir
banner
banner