Elías Rafn Ólafsson, markvörður Midtjylland í Danmörku, er næstbesti markvörður dönsku úrvalsdeildarinnar að mati danska miðilsins Tipsbladet.
Landsliðsmarkvörðurinn hefur eignað sér aðalmarkvarðarstöðuna eftir áralanga baráttu við Jonas Lössl um stöðuna.
„Hann hefur verið inn og út úr liði Midtjylland síðustu ár og þurfti stundum að deila spiltímanum með Jonas Lössl, en núna virðist Elías hafa eignað sér stöðuna. Frábært haust hjá honum með öflugri frammistöðu í bæði deildinni og Evrópudeildinni,“ skrifar Tipsbladet.
Elías hefur haldið tólf sinnum hreinu í 26 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu og aðeins fengið á sig 22 mörk.
Hann er þá búinn að taka aðalmarkvarðarstöðuna í A-landsliðinu og spilað alla leikina í síðustu þremur landsleikjagluggum.
Athugasemdir




