banner
   mið 16. nóvember 2022 21:49
Ívan Guðjón Baldursson
Mexíkó tapaði lokaleiknum fyrir HM - Grifo hetja Ítala
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Mexíkó og Svíþjóð áttust við í æfingaleik á Spáni í kvöld þar sem Mexíkóar voru að spila sinn síðasta leik fyrir upphafsflautið á HM í Katar.


Mexíkó er í erfiðum riðli á HM ásamt Argentínu, Póllandi og Sádí-Arabíu og þarf að nýta færin sín betur í riðlakeppninni til að eiga möguleika á að komast áfram.

Mexíkóar fengu mikið af fínum færum í kvöld en Svíar tóku forystuna þegar Marcus Rohden skoraði á 54. mínútu eftir undirbúning frá Mattias Svanberg.

Alexis Vega, leikmaður Chivas í heimalandinu, jafnaði sex mínútum síðar eftir undirbúning frá Hector Herrera og hélst staðan jöfn þar til undir lokin, þegar Svanberg gerði sigurmarkið sjálfur á 84. mínútu.

Mexíkó 1 - 2 Svíþjóð
0-1 Marcus Rohden ('54)
1-1 Alexis Vega ('60)
1-2 Mattias Svanberg ('84)

Ítalía og Albanía, sem fara ekki á HM, áttust þá við í vináttulandsleik sem lauk með sigri Ítalíu eftir furðulega opinn og jafnan leik.

Albanir tóku forystuna snemma leiks en Ítalir voru snöggir að snúa stöðunni við. Ardian Ismajli, leikmaður Empoli, kom Albönum yfir eftir stoðsendingu frá liðsfélaga sínum hjá Empoli, Nedim Bajrami.

Albanir voru ekki lengi í paradís því Giovanni Di Lorenzo og Vincenzo Grifo sáu um að snúa dæminu við með mörkum á næstu mínútum.

Ítalir voru betri í fyrri hálfleik en Albanir sýndu mikinn kraft eftir leikhlé án þess þó að takast að skora. Þess í stað innsiglaði Grifo sigur Ítala með sínu öðru marki. Grifo er 29 ára kantmaður Freiburg sem er núna kominn með fjögur mörk í sjö A-landsleikjum.

Að lokum skildu Alsír og Malí jöfn, 1-1, þar sem Riyad Mahrez og Mamadou Fofana sáu um markaskorunina.

Albanía 1 - 3 Ítalía
1-0 Ardian Ismajli ('16)
1-1 Giovanni Di Lorenzo ('20)
1-2 Vincenzo Grifo ('25)
1-3 Vincenzo Grifo ('64)

Alsír 1 - 1 Malí
1-0 Riyad Mahrez ('45, víti)
1-1 Mamadou Fofana ('58)


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner