Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 30. september 2020 20:39
Ívan Guðjón Baldursson
Deildabikarinn: Man Utd nýtti færin - Calvert-Lewin með þrennu
Gylfi Þór lagði upp
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Tveimur síðustu leikjum dagsins í enska deildabikarnum var að ljúka rétt í þessu. Manchester United og Everton eru komin áfram í næstu umferð.

Man Utd hafði betur gegn Brighton á Amex leikvanginum í annað sinn á fjórum dögum. Leikurinn í kvöld var nokkuð jafn en Rauðu djöflarnir nýttu færin sín einfaldlega betur.

Scott McTominay kom Man Utd yfir undir lok fyrri hálfleiks þegar hann skallaði aukaspyrnu frá Juan Mata í netið. Mata tvöfaldaði svo forystuna á 73. mínútu eftir laglega hælsendingu frá Donny van de Beek.

Paul Pogba gerði endanlega út af við leikinn skömmu síðar þegar hann skoraði þrælmagnað mark úr aukaspyrnu en boltinn hafði viðkomu í leikmanni Brighton sem stóð í varnarvegg.

Leikurinn var í heildina nokkuð jafn en munurinn á liðunum fólst í gæðum og heppni.

Brighton 0 - 3 Man Utd
0-1 Scott McTominay ('44)
0-2 Juan Mata ('73)
0-3 Paul Pogba ('80)

Gylfi Þór Sigurðsson bar fyrirliðaband Everton í 4-1 sigri gegn West Ham. Þessi íslenski landsliðsmaður er búinn að missa byrjunarliðssætið sitt hjá liðinu en vinnur hörðum höndum að því að koma sér aftur í liðið. Hann átti góðan leik í kvöld og lagði síðasta markið upp.

Dominic Calvert-Lewin var maður leiksins. Hann hefur verið í fantaformi á upphafi tímabils og skoraði hann fyrsta markið á elleftu mínútu. Hann gerði frábærlega að taka á móti langri sendingu frá Michael Keane og afgreiða boltann framhjá Darren Randolph.

Lærisveinar Carlo Ancelotti voru betri í fyrri hálfleik en náðu ekki að bæta við. Robert Snodgrass jafnaði fyrir Hamrana í upphafi síðari hálfleiks með góðu skoti rétt fyrir utan vítateigslínuna.

Tíu mínútum síðar var Richarlison búinn að koma Everton á nýjan leik með flottu skoti sem breytti þó um stefnu í varnarmanni og endaði í netinu.

Næst var komið að Calvert-Lewin sem bætti tveimur mörkum við á lokakaflanum. Í fyrra markinu fylgdi hann stangarskoti eftir og seinna markið skoraði hann eftir flotta sendingu frá Gylfa.

Everton 4 - 1 West Ham
1-0 Dominic Calvert-Lewin ('11)
1-1 Robert Snodgrass ('46)
2-1 Richarlison ('56)
3-1 Dominic Calvert-Lewin ('78)
4-1 Dominic Calvert-Lewin ('84)
Athugasemdir
banner
banner
banner