Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 29. apríl 2008 09:26
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 12.sæti
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Guðmundur Karl
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í tólfta sætinu í þessari spá voru nýliðar KS/Leifturs sem fengu 33 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um KS/Leiftur.


12.sæti: KS/Leiftur
Búningar: Blá treyja, blár buxur, bláir sokkar.
Heimasíða: http://www.leiftur.is og http://www.siglo.is/ks

Það búast margir við erfiðu sumri hjá KS/Leiftri og er liðinu spáð neðsta sæti 1. deildarinnar af þjálfurum og fyrirliðum í deildinni. Það má kalla KS/Leiftur spútniklið Íslandsmótsins í fyrra. Eftir að hafa gengið í gegnum miklar mannabreytingar og verið spáð sjöunda sæti 2. deildar gerði liðið sér lítið fyrir og vann sér inn sæti í 1. deildinni.

Ragnar Hauksson, spilandi þjálfari liðsins, er ákveðinn í að halda liðinu uppi en síðustu þrjú skipti sem KS hefur farið upp hefur liðið fallið aftur niður jafnóðum. Margir heimamenn voru ekki vissir í fyrra hvort liðið væri í stakk búið til að takast á við 1. deildina en leikmenn eru væntanlega ákveðnir í að sýna það og sanna í sumar að þeir séu vel tilbúnir.

Það mun mikið mæða á lykilmönnum liðsins í sumar. Þorvaldur Þorsteinsson markvörður, Ragnar Hauksson og Sandor Forizs voru allir í liði ársins í 2. deildinni í fyrra og mikilvægt að þeir haldist heilir. Serbneski varnarmaðurinn Dusan Ivkovic var einnig í liði ársins en hann er horfinn á braut í raðir Selfyssinga og þar munar um minna fyrir KS/Leiftur en Dusan lék virkilega vel í fyrra.

Liðið hefur verið að ná að spila nokkuð vel á köflum nú á undirbúningstímabilinu þó úrslitin hafi ekki verið að koma í hús. Markaskorun hefur verið ákveðið vandamál en liðið skoraði þrjú mörk í fimm leikjum sínum í Lengjubikarnum, það verður þó að horfa til þess að þrír af þeim leikjum voru gegn Landsbankadeildarliðum.

KS/Leiftur hefur endurheimt William Geir Þorsteinsson og Þorvald Svein Guðbjörnsson sem munu vafalítið styrkja liðið mikið. Liðið hefur fengið tvo erlenda leikmenn, Milos Tanasic sem var hjá Keflavík í fyrra og Ede Visinka sem er 35 ára reynslumikill varnarmaður sem lék með Rauðu Stjörnunni í fyrra. Þá er Sigurbjörn Hafþórsson, ungur leikmaður sem lék með Keflavík í fyrra, kominn á heimaslóðir og tveir ungir leikmenn komnir á lánssamningum frá Breiðabliki.

Styrkleikar: Ef KS/Leiftur ætlar sér að halda sæti sínu í deildinni þarf heimavöllurinn að vera þeim ansi sterkur. Það er lykilatriði fyrir liðið. Leikmannahópurinn er skipaður heimamönnum að stóru leyti og það gæti hjálpað þeim. Þá er fín blanda af reynslumiklum mönnum í kringum unga og spræka leikmenn. Ragnar Hauksson er erfiður viðureignar í fremstu víglínu og mikilvægt að hann verði í rétta gírnum.

Veikleikar: Liðið má alls ekki við skakkaföllum því breiddin er ekki mjög mikil. Ef lykilmenn verða ekki upp á sitt besta gæti liðið lent í verulegum vandræðum. Eins og gengur og gerist með lið úti á landi hefur leikmannahópurinn verið nokkuð sundraður í vetur og það gæti háð liðinu eitthvað í upphafi móts.

Þjálfari: Ragnar Hauksson. Ragnar hefur verið lykilmaður hjá KS í langan tíma. Hann tók svo við þjálfun KS/Leifturs í fyrra og náði þeim frábæra árangri að komast upp með það á fyrsta tímabili auk þess að vera í liði ársins sem leikmaður. Hann var valinn þjálfari ársins í 2. deild í fyrra.

Lykilmenn: Ragnar Hauksson, Sandor Zoltan Forizs og Þorvaldur Þorsteinsson.


Komnir: William Geir Þorsteinsson frá Fjarðabyggð, Þorvaldur Sveinn Guðbjörnsson frá KA, Sigurbjörn Hafþórsson frá Keflavík, Milos Tanasic frá Keflavík, Ede Vsinka frá Serbíu, Guðjón Gunnarsson frá Breiðabliki, Hrafn Ingason frá Breiðabliki

Farnir: Dusan Ivkovic í Selfoss, Árni Einar Adolfsson í Hvöt, Guðjón Þór Ólafsson í Ými, Béres Ferenc til Ungverjalands, Halldór Ingvar Guðmundsson í KA, Sigmundur Jónsson í Árborg.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. KS/Leiftur 33 stig
Athugasemdir
banner
banner