Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   mið 11. ágúst 2010 18:03
Alexander Freyr Tamimi
U21: Ísland burstaði Evrópumeistara Þýskalands
Bein textalýsing frá Kaplakrikavelli
U21 árs landslið Íslands er 4-1 yfir gegn Þýskalandi.
U21 árs landslið Íslands er 4-1 yfir gegn Þýskalandi.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið að gera góða hluti með Reading.
Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið að gera góða hluti með Reading.
Mynd: Getty Images
Birkir Bjarnason skoraði laglegt mark.
Birkir Bjarnason skoraði laglegt mark.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kolbeinn Sigþórsson skoraði flott mark og kom Íslandi í 3-1.
Kolbeinn Sigþórsson skoraði flott mark og kom Íslandi í 3-1.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland 4 - 1 Þýskaland
1-0 Birkir Bjarnason ('5)
1-1 Kevin Grosskreutz ('49)
2-1 Gylfi Þór Sigurðsson ('53)
3-1 Kolbeinn Sigþórsson ('55)
4-1 Alfreð Finnbogason ('84)

Leik lokið: Leiknum er lokið með glæsilegum 4-1 sigri Íslands á Evrópumeisturum Þýskalands! Hver hefði trúað því að þetta yrðu lokatölurnar?? Íslendingar hafa sama og tryggt sæti sitt í umspili fyrir EM 2011 sem er stórkostlegur árangur!! Þeir áttu frábæran leik í dag og þá sérstaklega í seinni hálfleik! Þeir létu það ekki buga sig þegar gestirnir jöfnuðu metin og svöruðu með tveimur glæsilegum mörkum! Hvílík frammistaða hjá strákunum!!! Ég kveð með sömu orðum og Silvía Nótt lét eitt sinn falla; TIL HAMINGJU ÍSLAND!!!!

90. mín: Haraldur sýnir snilldartakta í markinu og kemur í veg fyrir að Þjóðverjar minnki muninn.

85. mín: Eyjólfur gerir síðustu skiptinguna. Andrés Már Jóhannesson leikmaður Fylkis kemur inn á fyrir Jóhann Berg Guðmundsson.

84. mín: MAAAAARK!!!! ALFREÐ FINNBOGASON MEÐ FRÁBÆRA INNKOMU!!!! HANN KEMST INN Í SENDINGU ÞJÓÐVERJA OG KEYRIR EINN Á MARKVÖRÐINN!! SIPPEL Í MARKINU VEÐUR ÁFRAM OG ALFREÐ PIKKAR BOLTANUM STÓRKOSTLEGA FRAMHJÁ HONUM, HLEYPUR ÁFRAM OG AFGREIÐIR HANN Í TÓMT NETIÐ! HVÍLÍKT MARK HJÁ ALFREÐ OG HVÍLÍK FRAMMISTAÐA ÍSLENSKA LANDSLIÐSINS! STAÐAN ER 4-1 OG LEIKURINN SVO GOTT SEM BÚINN NÚNA!!

83. mín: Þjóðverjar hársbreidd frá því að minnka muninn! Þeir fá allan tíma í heiminum eftir hornspyrnu og skapa sér gott skotfæri en Haraldur ver glæsilega!

80. mín: Julian Schieber á skalla hárfínt yfir eftir góða háa sendingu. Sókn Þjóðverja orðin full þung fyrir minn smekk.

79. mín: Önnur skipting hjá Íslendingum. Liverpool-maðurinn Guðlaugur Victor Pálsson kemur inn á fyrir Birki Bjarnason.

78. mín: Þjóðverjarnir að skapa hættu eftir hornspyrnu en Haraldur Sigurðsson ver glæsilega. Síðan neglir annar leikmaður Þýskalands boltanum yfir.

72. mín: Alfreð nær strax að skapa hættu! Gylfi Þór nær sendingu inn í teiginn og Alfreð nær skoti en það fer beint á markvörð Þjóðverja sem grípur knöttinn.

71. mín: Eyjólfur Sverrison gerir sína fyrstu skiptingu. Kolbeinn Sigþórsson, sem hefur verið mjög fínn í leiknum, fer af velli og inn í hans stað kemur Blikinn Alfreð Finnbogason. Alfreð hefur átt frábært tímabil hér heima og verðskuldar svo sannarlega tækifæri.

70. mín: Íslendingarnir eiga mjög fína sókn sem hefst með góðri syrpu frá Jóhanni Berg. Hann leggur boltann á Kolbein sem er í ágætis skotfæri utan teigs en hann stingur knettinum þó inn á Gylfa sem er í enn betra færi. Gylfi hefði hugsanlega bara átt að láta vaða en hann reyndi sendingu á Birki Bjarnason en hún var of laus og Þjóðverjarnir komust fyrir.

68. mín: Kolbeinn Sigþórsson fær á sig algert óþarfa gult spjald fyrir að standa fyrir boltanum og koma í veg fyrir að Þjóðverjar geti tekið aukaspyrnuna snemma. Algjörlega tilgangslaust hjá Kolbeini þar sem engin hætta var á ferðum. Skömmu síðar fær Eggert Gunnþór einnig að líta gula spjaldið fyrir brot. Að sjálfsögðu fá harðjaxlar úr skosku úrvalsdeildinni á sig gult, ekkert að því!

66. mín: Timo Gebhart fær gult spjald fyrir að rífa kjaft við dómarann eftir að Þjóðverjar fá dæmda aukaspyrnu. Hvort hann vildi fá dæmt spjald á Skúla Jón veit ég ekki en að minnsta kosti sýndi norski dómarinn honum gult. Gebhart tekur svo aukaspyrnuna sjálfur en skot hans fer yfir.

65. mín: Lítið markvert hefur verið að gerast undanfarið. Þjóðverjarnir að vísu nokkrum sinnum nálægt því að komast í dauðafæri en eru ávallt dæmdir rangstæðir. Þeir eru aðeins að þyngja sóknina og Íslendingarnir þurfa að passa sig að lenda ekki í sama pakka og í fyrri hálfleik. Nema þá að þeir geti haldið hreinu eins og í fyrri.

61. mín: Ísland hársbreidd frá því að bæta við!! Birkir Bjarnason gerir frábærlega og kemur fyrirgjöf inn í teiginn þar sem Kolbeinn nær frábærum skalla sem markvörður Þjóðverja ver glæsilega. Þýskaland geysist svo upp í skyndisókn þar sem Hólmar Örn Eyjólfsson bjargar frábærlega í horn. Ekkert verður úr hornspyrnunni.

59. mín: Ég er í sjokki hérna! Strákarnir okkar eru að standa sig frábærlega hérna og það kannski sýnir sig á því að Þjóðverjarnir voru að gera tvöfalda skiptingu. Þeir Daniel Schwaab og Richard Sukuta-Pasu komu inn á fyrir Denis Diekmeier og Philip Bagfrede.

55. mín: MAAAAAAAAAAAAAAARK!!! HVAÐ ER Í GANGI?? TALANDI UM AÐ SVARA FYRIR SIG MEÐ STÆL!! Í STAÐ ÞESS AÐ BROTNA VIÐ AÐ FÁ Á SIG MARK SNEMMA FYRRI HÁLFLEIKS SVÖRUÐU ÍSLENDINGARNIR MEÐ TVEIMUR Á TVEIMUR MÍNÚTUM! Í ÞETTA SKIPTIÐ VAR ÞAÐ KOLBEINN SIGÞÓRSSON MEÐ STÓRGLÆSILEGRI VIPPU EFTIR AÐ HAFA KOMIST EINN Í GEGN! Markvörðurinn hljóð út gegn Kolbeini en hann var fyrri til og pikkaði boltanum yfir hann og skoraði! Hvílík snilld, hvílík snilld! Staðan 3-1 fyrir Íslandi og útlitið er vægast sagt frábært!! Nú verða strákarnir að halda áfram á sömu braut!

54. mín: Gefum Magnúsi Gylfasyni sparkspekingi kredit, hann var búinn að spá að Gylfi myndi skora úr aukaspyrnunni í fjærhornið. Hárrétt hjá Magnúsi.

53. mín: MAAAAARK!!! ÞESSI VAR ALLTAF Á LEIÐINNI INN!!! GYLFI ÞÓR SIGURÐSSON SKORAR BEINT ÚR AUKASPYRNUNNI MEÐ STÓRGLÆSILEGU SKOTI!!! HANN ER FRÁBÆR SPYRNUMAÐUR OG SANNAÐI ÞAÐ HÉR! ÍSLENDINGARNIR EKKI LENGI AÐ KOMA TIL BAKA, HVÍLÍKUR KARAKTER, HVÍLÍKT MARK!

52. mín: Íslendingar fá aukaspyrnu á stórhættulegum stað eftir að brotið er á Gylfa Sigurðssyni. Gylfi átti góðan sprett en datt svo í grasið og dæmd var aukaspyrna, réttilega.

49. mín: Mark! Kevin Grosskreutz jafnar metin fyrir Þýskaland eftir fyrirgjöf frá Timo Gebhart. Gebhart kom sér í góða stöðu og kom knettinum fyrir þar sem Grosskreutz kláraði vel í fyrsta. Býsna súrt að fá á sig mark svona snemma síðari hálfleiks en vonandi missa strákarnir ekki móðinn.

47. mín: Þjóðverjarnir fá aukaspyrnu en hún endar í fanginu á Haraldi í markinu.

46. mín: Þá er leikurinn hafinn á ný! Vonandi byrjar seinni hálfleikurinn á svipaðan hátt og sá fyrri og við setjum hann bara strax! En á meðan Þjóðverjar skora ekki getur svosum enginn kvartað.

Hálfleikur: Já, það er svo sannarlega skemmtilegt að vera hérna í Kaplakrikanum á þessari stundu! Stúkan er alveg troðfull og alveg æðislegt að sjá. Gaman að sjá fólk flykkjast á bakvið strákana og sýna þeim stuðning og enn skemmtilegara að Ísland sé yfir 1-0 í hálfleik. Menn vissu alltaf að þetta yrði erfiður leikur en strákarnir hafa staðið sig glæsilega hingað til. Vissulega hafa Þjóðverjar að mörgu leiti stýrt leiknum en þeir voru í raun aldrei nálægt því að skora fyrr en þarna í uppbótartíma á meðan Íslendingar hafa átt að minnsta kosti tvö dauðafæri auk marksins. Ég bíð spenntur eftir seinni hálfleiknum og vona innilega að íslensku strákarnir nái að hampa sigri. Það væri frábært fyrir okkar knattspyrnu.

Hálfleikur: Rétt eftir þetta þrumuskot var flautað til leikhlés og staðan ennþá 1-0 fyrir Íslendingum frá því á 5. mínútu. Haraldur gerði frábærlega að verja og gæti markvarsla hans reynst ómetanleg, því það hefði verið ömurlegt að fá á sig mark svona rétt fyrir leikhlé. Þess í stað eru strákarnir okkar með forystuna og takist þeim að halda henni eru þeir á leið í umspil um sæti í lokakeppni EM.

46. mín: Stórkostleg markvarsla hjá Haraldi!!! Marcel Schmelzer á þrumuskot utan teigs sem Haraldur ver meistaralega. Minnstu munar að Þýskarar nái að fylgja eftir en Haraldur ver aftur.

41. mín: Þjóðverji við það að komast í fínasta færi en Haraldur hleypur út og tæklar knöttinn í horn. Þjóðverjinn steinliggur eftir og þarf aðhlynningu. Úr hornspyrnunni ná Þjóðverjar skalla sem fer rétt framhjá, en þar var á ferð Timo Gebhart.

39. mín: Þjóðverjar fá hornspyrnu á hægri kantinum en ekkert verður úr henni. Þjóðverji var brotlegur og aukaspyrna réttilega dæmd.

35. mín: Leiðindi í Þjóðverjum! Birkir Bjarnason á mjög fínan sprett á miðjunni og síðan er brotið á honum. Birkir gerir sig reiðubúinn til að taka snögga aukaspyrnu en Julian Schieber stöðvar hann með því að sparka í boltann. Birkir er allt annað en sáttur með Scheiber en sá þýski fær að verðlaunum gult spjald.

32. mín: Frábær sókn hjá Íslendingum!! Íslenska liðið spilaði boltanum vel á milli sín og Skúli Jón átti svo frábæra skiptingu yfir á vinstri kantinn á Jóhann Berg. Jóhann Berg kom með flotta fyrirgjöf sem barst til Gylfa Þórs Sigurðssonar sem átti þrumuskot sem markvörður Þýskalands þurfti að hafa sig allan til til að verja í hornspyrnu. Frábær sókn og þarna hefði verið gaman að vera tveimur mörkum yfir. Þó svo að Þjóðverjarnir hafi verið talsvert meira með boltann hafa hættulegu færin komið Íslands megin.

30. mín: Hætta hinum megin! Phillip Bagfrede nær tveimur góðum skotum en varnarmenn Íslendinga komast fyrir í bæði skiptin.

29. mín: Dauðafæri hjá Íslandi!! Stilla saman strengi hvað? Kolbeinn Sigþórsson kemst upp hægri kantinn og gefur inn á Jóhann Berg sem er í frábæru skotfæri inni í teig en skot Jóhanns fer yfir markið. Flott samspil hjá félögunum hjá AZ Alkmaar en skot Jóhanns hefði gjarna mátt fara á markið.

27. mín: Þjóðverjarnir eiga fína sókn sem endar með því að Kevin Grosskreutz nær skalla en hann hittir ekki á markið. Persónulega er ég orðinn alveg vel taugaóstyrkur og ég vona að við náum að halda þetta út, að minnsta kosti út fyrri hálfleikinn til að liðið geti betur stillt saman strengi sína í leikhléi.

23. mín: Timo Gebhart kemst í nokkuð gott skallafæri inni í teig og skallar knöttinn í jörðina en hann fer þaðan og framhjá. Íslendingar eru mest bara með einhvern kýlingabolta sem er ekki að skila miklum árangri og ljóst að þeir þurfa að öðlast hugrekki til að spila meira í fætur ef þeir ætla ekki að láta Þjóðverjana vaða yfir sig.

21. mín: Þjóðverjar fá aukaspyrnu á hættulegum stað sem ekkert verður úr.

20. mín: Ekki mikið sem hefur verið að gerast undanfarið en Þýskararnir eru enn sem fyrr meira með boltann. Þeir eru gríðarlega líkamlega sterkir og fljótir og spila boltanum vel á milli sín. Hingað til hefur Íslendingunum þó tekist að halda þeim í skefjum og koma í veg fyrir að þeir skapi sér hættuleg færi, en gestirnir eru án alls vafa hættulegir.

13. mín: Bjarni Þór Viðarsson er með skalla af fjærstöng eftir ágætlega útfærða hornspyrnu Íslendinga en Tobias Sippel í markinu ver auðveldlega.

12. mín: Íslendingar hársbreidd frá því að bæta við! Kolbeinn Sigþórsson komst upp kantinn og átti fína fyrirgjöf inn í teig en varnarmanni Þjóðverja tókst með naumindum að bjarga því að Gykfi Sigurðsson næði til knattarins.

11. mín: Þjóðverjarnir eru aðeins að herða tökin og eru mun meira með boltann. Þeir hafa þó ekki verið að skapa sér nein afgerandi færi utan við það þegar Julian Schieber komst einn gegn Haraldi í markinu en Haraldur varði. Auk þess var rangstaða, svo ekkert hefði orðið úr því hvort eð er!

8. mín: Stórkostlegt hjá Íslendingum að komast yfir svona snemma leiks, en það þarf einnig sterkar taugar til að vera yfir allan leikinn. Þjóðverjarnir hafa sýnt ágætis takta eftir markið og voru nálægt því að skora strax í næstu sókn en skalli þeirra fór rétt yfir. Íslendingarnir verða að halda rétt á spilunum það sem eftir er og þá getur allt gerst, en að sjálfsögðu er alltaf frábært að skora snemma.

5. mín: MAAAAARK!!! ÍSLAND ERU BÚNIR AÐ TAKA FORYSTUNA!!! BIRKIR BJARNASON SKORAR STÓRKOSTLEGT MARK EFTIR FRÁBÆRA FYRIRGJÖF FRÁ GYLFA ÞÓR SIGURÐSSYNI! Birkir gerði gríðarlega vel og náði erfiðri móttöku inni í teignum og kláraði af stakri snilld í hægra hornið! Frábær byrjun hjá Íslendingum!!!

4. mín: Íslendingarnir meira með boltann til að byrja með en enn hafa engin færi af viti skapast. Baráttan hefur fyrst og fremst farið fram á miðjunni.

1. mín: Leikurinn er hafinn og eru það strákarnir okkar sem byrja með boltann! Áfram Ísland!!!

16.12: Þá hefur íslenski þjóðsöngurinn einnig verið leikinn og leikurinn fer í þann mund að hefjast. Þjóðverjar verða að vinna ef þeir ætla að eiga einhverja möguleika á að komast áfram en Íslendingar koma sér í frábæra stöðu með sigri.

16.09: Leikmenn ganga inn á völlinn með dómarann Espen Berntsen frá Noregi í fararbroddi. Eitthvað klikkar hljóðið í þýska þjóðsöngnum, en þetta hefst á endanum.

16.07: Mætingin á þennan leik er geðveik! Nýja stúkan er að fyllast og enn streymir fólk að! Það er byrjað að hleypa inn í gömlu stúkuna og vonandi nær að myndast smá stemning þeim megin. Það kæmi mér engan veginn á óvart ef það yrði mun fleiri áhorfendur hér heldur en í A-landsleiknum. Enda mun merkilegari leikur hér, með fullri virðingu fyrir okkar blessaða A-landsliði.

16.00: Þá er bara stundarfjórðungur í leik og spennan magnast! Geta Íslendingarnir sigrast á sterku liði Þjóðverja og sama og tryggt sér sæti í umspili EM 2011 Í Danmörku?

15.57: Byrjunarlið Þýskalands er komið. Þið getið séð það fyrir neðan byrjunarlið Íslendinga.

15.53: Maður ætti kannski að birta byrjunarlið Þýskalands. Þó svo að maður þekki ekki nöfn þessara leikmanna þekkir maður heldur betur liðin sem þeir spila fyrir. Þeir virðast allir spila í Þýskalandi og eru þeir á mála hjá félögum á borð við Werder Bremen, Bayern Leverkusen, Schalke, HSV, Stuttgart og fleiri. Ég gæti þó alveg ímyndað mér að einhverjir þeirra séu enn í varaliðunum, en samt sem áður, bókað sterkir leikmenn. Við þurfum klárlega að eiga toppleik ef við viljum vinna.

15.46: Já það er sól og blíða hérna í Kaplakrikanum, stórkostlegt fótboltaveður og það er ánægjulegt að sjá hversu margir eru hingað mættir miðað við að enn er hálftími í leik. Vonandi verpur nýja stúkan bara troðfull, Íslengingarnir þurfa á stuðningum að halda og svo eiga drengirnir hann einfaldlega skilinn! Ef þú ert að velta því fyrir þér hvort þú ættir að skella þér á völlinn eða ekki, dúndraðu þér af stað. Það er ekki oft sem við fáum svona stórleiki.

15.35: Þó svo að nokkrir góðir leikmenn sem eru gjaldgengir í U21 liðið séu að spila með A-landsliðinu í kvöld má þó ekki gleyma því að í U21 liði okkar er mikið um gríðarlega efnilega leikmenn. Í byrjunarliðinu erum við meðal annars með Gylfa Þór Sigurðsson sem hefur verið ein skærasta stjarna Reading í ensku Championship deildinni undanfarið og auk hans má nefna leikmenn á borð við Jóhann Berg Guðmundsson og Kolbein Sigþórsson hjá AZ Alkmaar, Birki Bjarnason hjá Viking og Eggert Gunnþór Jónsson sem spilar með Hearts í Skotlandi. Með þessa drengi, ásamt fjölmörgum öðrum sem eru í þessum hóp í dag, getum við verið mjög bjartsýn á að framtíð íslenska karlalandsliðsins sé björt. Vonandi ná þessir strákar allir að blómstra í dag.

15.30: Einhver umræða hefur verið í gangi tengd þeirri staðreynd að við getum ekki stillt upp sterkasta U-21 liði sem er á boðstólnum. Leikmenn á borð við Aron Einar Gunnarsson, Rúrik Gíslason og Arnór Svein Atlason eru gjaldgengir í U21 liðið en eru samt sem áður valdir í A-landsliðshópinn sem mætir Liechtenstein í vináttuleik síðar í kvöld. Ljóst etr að þessir leikmenn myndu styrkja U21 liðið gríðarlega og auka möguleika okkar á því að sigra Þjóðverjana en að sama skapi skortir Þjóðverja einnig gjaldgenga leikmenn sem gætu styrkt þeirra lið gríðarlega. Þá á ég við leikmenn á borð við Thomas Muller, Toni Kroos og fleiri stjörnur sem spiluðu á HM 2010 í Suður Afríku. Þetta verður því bara að teljast sanngjarnt. Þó er ljóst að þessir leikmenn sem mæta hingað í Krikann eru engir aukvisar, en margir þeirra spila í þýsku Bundesligunni.

15.20: Íslenska liðið er í flottum málum í öðru sæti riðilsins, tveimur stigum á eftir toppliði Tékka og fimm stigum á undan Þjóðverjum en bæði lið eiga reyndar leik til góða. Efsta sæti í riðlinum gefur sjálfkrafa sæti í umspili um sæti í lokakeppni EM en tíu riðlar eru samtals í undankeppninni. Fjögur bestu liðin í 2. sæti keppa einnig um sæti í lokakeppninni (samtals 14 lið) og sigurvegarar leikjanna sjö komast í lokakeppnina ásamt mótshöldurum Dana.

Í augnablikinu er Ísland með bestu stöðuna í 2. sæti í þessum tíu riðlum og með sigri kemst liðið langt með að gulltryggja sig áfram. Það gefur þeim einnig von á að stela efsta sætinu af toppliði Tékka, en þessi tvö lið mætast í lokaleiknum í næsta mánuði úti. Stöðu riðilsins má sjá hérna neðst í fréttinni.

15.15: Góðan og blessaðan daginn kæru lesendur og verið velkomin í beina textalýsingu Fótbolta.net frá leik Íslands og Þýskalands í undankeppni Evrópumóts U-21 landsliða, en leikurinn hefst eftir nákvæmlega klukkustund. Sjaldan hefur jafn mikið verið í húfi fyrir íslenskt landslið og er fyrir strákana okkar í dag, en með sigri geta þeir sama og gulltryggt sæti sitt í umspili lokakeppni EM 2011, sem haldin verður í Danmörku.

Lið Íslands má sjá hér að neðan:

Byrjunarlið Íslands: Haraldur Björnsson (M), Skúli Jón Friðgeirsson, Jón Guðni Fjóluson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Kristinn Jónsson, Eggert Gunnþór Jónsson, Bjarni Þór Viðarsson (F), Gylfi Þór Sigurðsson, Birkir Bjarnason, Jóhann Berg Guðmundsson, Kolbeinn Sigþórsson.

Varamenn: Arnar Darri Pétursson (M), Jósef Kristinn Jósefsson, Andrés Már Jóhannesson, Almarr Ormarsson, Alfreð Finnbogason, Guðlaugur Victor Pálsson, Kristinn Steindórsson.

Byrjunarlið Þýskalands: Tobias Sippel (M), Stefán Reinartz, Benedikt Höwedes, Dennis Diekmeier (58. Daniel Scwhaab), Julian Schieber, Timo Gebhart, Mart Hummels (F), Philipp Bargfrede (58. Richard Sukuta-Pasu), Marcel Schmelzer, Lars Bender, Kevin Grosskreutz.

Varamenn: Sven Ulreich (M), Daniel Schwaab, Felix Bastians, , Sidney Sam, Lewis Holtby, Sven Bender.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
banner
banner
banner
banner