Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   lau 01. október 2022 17:34
Brynjar Ingi Erluson
Klopp: Brighton átti eitthvað skilið úr þessum leik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images
Jürgen Klopp, stjóri Liverpool á Englandi, segir að Brighton hafi átt eitthvað skilið úr leik liðanna á Anfield í dag en honum lauk með 3-3 jafntefli.

Liverpool lenti tveimur mörkum undir snemma leiks. Leandro Trossard gerði bæði mörkin en Roberto Firmino minnkaði muninn áður en hann svo jafnaði metin í síðari hálfleiknum.

Heimamenn komust yfir eftir hornspyrnu og var endurkoman fullkomnuð en Trossard sótti stigið fyrir Brighton þegar lítið var eftir af leiknum. Mögnuð frammistaða hjá honum í dag.

„Það voru margar mismunandi sögur í þessum leik. Það er sagan um hvernig við fengum á okkur tvö mörk snemma leiks og svo er það sagan hvernig við komum til baka og svo auðvitað sagan hvernig við köstuðum þessu frá okkur."

„Brighton er með mjög gott lið og þetta er alvöru lið. Þetta var svolítið öðruvísi uppstilling og það kom okkur aðeins á óvart, en við vorum þegar 2-0 undir og náðum að aðlagast því. Við skoruðum okkar mörk sem voru skyndisóknir. Við hefðum getað unnið en hefðum við átt sigurinn skilið? Ég er ekki viss um það. Brighton átti eitthvað skilið úr þessu."

„Eftir alla góðu hlutina sem við gerðum í vikunni þá er sjálfstraustið samt eins og lítið blóm og það getur verið ansi erfitt þegar það er traðkað á því. Við verðum að sætta okkur við það og auðvitað er þetta ekki nóg en þetta er það sem við erum með."

„Ég talaði við strákana á svipaðan hátt og ég tala við ykkur. Ég veit ekki hversu oft ég hef sagt að við þurfum að bregðast við. Fyrsta markið hafði áhrif á bæði lið. Þeir voru fljúgandi og við vorum einhverstaðar á milli. Þeir nýttu sér það fyrir seinna markið,"
sagði Klopp.

Liverpool er aðeins með tíu stig eftir sjö leiki og er ellefu stigum á eftir toppliði Arsenal.

„Við gátum varist betur. Svona er fótboltinn og við verðum að sætta okkur við það. Á svona degi, þar sem þú byrjar leikinn á ennan hátt er mikilvægt að berjast í gegnum þetta. Það hefði verið notalegt ef við hefðum unnið. Við höfum alltaf verið í vandræðum með Brighton sem er mjög gott fótboltalið en við verðum að gera betur."

„Ég veit að við erum með tíu stig og það er raunveruleikinn. Ég reyni ekki að komast hjá því. Saman verðum við að halda áfram að byggja,"
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner