Inter á eftir Guehi - Man Utd sýnir miðjumanni Chelsea áhuga - Stórlið sýna miðjumanni Lille áhuga
   lau 01. nóvember 2025 19:06
Ívan Guðjón Baldursson
Tommy Nielsen tekinn við hjá Reyni S. (Staðfest)
Mynd: Reynir Sandgerði
Mynd: Reynir Sandgerði
Reynir Sandgerði er búið að ráða Tommy Fredsgaard Nielsen sem þjálfara meistaraflokks karla fyrir næsta tímabil.

Tommy Nielsen hefur mikla reynslu í fótboltaheiminum eftir að hafa leikið meðal annars með AGF í danska boltanum og FH á Íslandi.

Eftir að Tommy lagði fótboltaskóna á hilluna hefur hann sinnt þjálfun hjá FH, Þrótti R., Víði Garði og Grindavík.

„Liðið stóð sig vel í sumar þar sem það hafnaði í 5. sæti 3. deildar. Við sjáum fyrir okkur að byggja liðið áfram upp á heimamönnum og tel ég að við höfum alla burði til þess að ná góðum árangri næsta sumar. Ég hlakka til þess að takast á við þetta metnaðarfulla verkefni og leggja mitt af mörkum fyrir Reyni Sandgerði," sagði Tommy við undirritunina. Reynir leikur í 3. deild karla og endaði með 38 stig úr 22 umferðum á síðustu leiktíð.

Arnór Siggeirsson, sem spilaði með Reyni í sumar, er búinn að skrifa undir samning sem spilandi aðstoðarþjálfari fyrir komandi tímabil. Ásamt honum eru leikmennirnir Valur Þór Magnússon og Alex Þór Reynisson búnir að gera nýja samninga við félagið, en þeir eru fæddir 2004 og 2006.

Tommy þurfti að berjast við ýmsa umsækjendur um þjálfarastarfið hjá Reyni samkvæmt Hannesi Jóni Jónssyni, nýkjörnum formanny fótboltadeildar þar á bæ.

„Við fórum nýja leið í ár og auglýstum eftir aðalþjálfara til stýra liðinu á komandi tímabili. Við fengum rúmlega 20 umsóknir sem kom skemmtilega á óvart og voru nokkrar mjög góðar. Stjórnin var þó sammála um að bjóða Tommy verkefnið. Við erum mjög ánægð með ráðninguna og hlökkum til samstarfsins," sagði Hannes Jón.
Athugasemdir
banner
banner