Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 04. apríl 2020 06:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mikil pressa á Xavi út af Guardiola
Xavi þjálfar Al Sadd í Katar.
Xavi þjálfar Al Sadd í Katar.
Mynd: Getty Images
Pep Guardiola.
Pep Guardiola.
Mynd: Getty Images
Brasilíska goðsögnin Rivaldo telur að Xavi verði einn daginn þjálfari Barcelona.

Xavi, sem er fertugur, lagði skóna á hilluna á síðasta ári eftir magnaðan feril. Hann ólst upp í Barcelona og vann allt sem hægt var að vinna með Börsungum. Hann er talinn einn af bestu miðjumönnum allra tíma en árið 2015 samdi hann við Al Sadd í Katar þar sem hann kláraði ferilinn.

Hann hefur frá því að leikmannaferlinum lauk þjálfað Al Sadd sem er í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar í Katar.

Xavi var sterklega orðaður við þjálfarastöðuna hjá Barcelona fyrr á tímabilinu en hann vildi ekki taka við liðinu á miðju tímabili. Hann hefur síðan talað um að hann sé til í að taka við Börsungum svo lengi sem andrúmsloftið sé gott í klefanum.

Rivaldo, sem spilaði með Xavi hjá Barcelona á sínum tíma, telur að fyrrum miðjumaðurinn verði undir pressu ef hann tekur við í Katalóníu þar sem honum svipar svo mikið til Pep Guardiola.

Rivaldo sagði við Betfair: „Ég tel að Xavi verði þjálfari Barcelona í framtíðinni. Hann er ekki bara góð manneskja sem þekkir félagið inn og út, hann virðist líka hafa góða kosti sem þjálfari. Hann veit þegar rétta augnablikið er til að taka við Barcelona."

„Hann mun reyna að endurskapa gullkynslóðarliðið sem hann var í hjá Barcelona. Pressan á honum verður mikil þar sem hann hefur átt svipaðan feril og Guardiola."

„Auðvitað verður ekki auðvelt að búa til eitthvað svipað og hann þyrfti að hafa réttu leikmennina á réttum tíma til að nýta í kerfinu sínu. Þegar þú ert með mikla pressu á þér þá er það vegna þess að fólk treystir og þú ert við stjórnvölinn hjá stóru félagi með mikinn metnað. Allir knattspyrnustjórar myndu vilja stýra Barcelona."

„Það mun margt velta á því hvaða leikmenn hann hefur þegar hann fer til Barcelona," segir Rivaldo.

Guardiola fór úr því að vera leikstjórnandi á miðsvæðinu í það að vera einn færasti þjálfari í heimi. Hann stýrði einu allra besta liði sögunnar þegar hann var stjóri Barcelona frá 2008 til 2012. Xavi var lykilmaður í því liði og stýrði leiknum af miðsvæðinu, líkt og Guardiola hafði gert fyrir Barcelona nokkrum árum áður.

Í dag er Guardiola við stjórnvölinn hjá Manchester City og góðar líkur eru á því að fyrrum leikstjórnandi hans stígi inn í hans fyrrum hlutverk - þjálfarastarfið hjá Barcelona - á einhverjum tímapunkti í framtíðinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner