mán 04. nóvember 2013 15:30
Gísli Gíslason
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Knattspyrna kvenna í sókn eða vörn?
Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: KSÍ - Hilmar Þór
Mynd: KSÍ - Hilmar Þór
Mynd: KSÍ - Hilmar Þór
Mynd: KSÍ - Hilmar Þór
Á síðustu árum hefur áhugi á knattspyrnu kvenna vaxið á Íslandi. Eflaust er það að hluta til tengt góðu gengi A landsliðs kvenna, atvinnukonum okkar á erlendis, bættum fréttaflutningi af leikjum stúlknanna og betri skilningi á hlut kvenna innan félaganna.

Allt eru þessi atriði gott innlegg í málið þótt enn sé nokkuð í land á mörgum sviðum. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að knattspyrna kvenna og karla sé sitt hvor hliðin á sama peningnum – og að hvorugt geti án hins verið. Aukin heldur er það félögunum og félagsstarfinu mikill hagur að vel sé gætt að hlut beggja kynja. Með því standa félögin vörð um grundvallar gildi samfélagsins um jafnrétti og höfða á sama tíma til miklu breiðari markshóps í starfi sínu – knattspyrnunni til heilla.

Þó svo að raddir heyrist um að engar tekjur fylgi kvennaboltanum heldur bara kostnaður, þá má á sama hátt færa rök fyrir því að „markaðsstaða“ félaganna sé mun sterkara ef vel er staðið að knattspyrnu kvenna ekki síður en karlanna. Það heldur því enginn fram að rekstur íþróttafélaga sé auðvelt verkefni og oft finnst okkur sem að þeim málum standa að skilningurinn á verkefninu sé takmarkaður.

Sem betur fer eru þó innan knattspyrnuhreyfingarinnar fjöldi fólks, karla og konur, sem leggur á sig ómælda vinnu og fyrirhöfn til að láta hlutina gerast.

Ef við lítum á þróun síðustu ára varðandi fjölda skráðra knattspyrnuiðkenda þá vekur athygli að karlamegin hefur að jafnaði verið fjölgun síðustu sjö ár – en kvennamegin er óveruleg breyting og fækkun iðkenda milli áranna 2012 og 2011. Ýmsar skýringar geta verið á þessari þróun – en mikilvægt er að taka mark á þróuninni – og skoða vel hvernig nýta eigi upplýsingar sem þessar.

Tölurnar sýna að þrátt fyrir aukinn áhuga á knattspyrnu kvenna, góðan árangur landsliða, bættri aðstöðu og þrátt fyrir framfari stúlknanna þá skilar það sér sem komið er ekki í fjölgun iðkenda.



Ef iðkendatölur eru nánar skoðaðar kemur í ljós að fjöldi iðkenda í 2. – 5 flokki kvennaliða í efstu og 1. deild er að meðaltali um 20 iðkendur á meðan að iðkendur karlamegin eru að meðaltali 36 í 2.- 5 flokki. Meðaltöl bera að sjálfsögðu með sér að staðan milli einstakra félaga og landshluta er misjöfn en meðalfjöldi iðkenda er mestur í yngstu flokkunum og lækkar þegar nær dregur meistaraflokki.

Vissulega er við ramman reip að draga þegar samanburður er tekinn við næstu nágranna okkar varðandi fjölda iðkenda eins og sjá má hér í töflu að neðan:



Af ofangreindu er augljóst að við keppum ekki á sama markaði og nágrannaþjóðir okkar hvað fjölda þátttakenda varðar. Hins vegar er hlutfallið okkur hagstæðara þegar skoðað er hvað fjármunir renna til landsliða kvenna miðað við heildartekjur knattspyrnusambandanna.

Til þess að styrkja enn frekar stöðu knattspyrnu kvenna er spurningin hvernig skal standa að verki? Í þessum efnum er það að sjálfsögðu knattspyrnufélaganna innan vébanda KSÍ að leggja línurnar. Verkefni okkar felst m.a. í að fjölga iðkendum og ná því besta út úr hverjum einstakling og til þess þarf m.a. að fjalla um eftirfarandi hugmyndir:

a) Á að fjölga liðum í efstu deild kvenna úr 10 í 12?
b) Á að leika 1. deild kvenna í einni deild?
c) Hvernig á að standa að leikjum liða sem yrðu utan efstu og 1. deildar?
d) Er skynsamlegt að breyta aldursmörkum yngri flokka til þess að auka meðalfjölda iðkenda í hverjum flokki?
e) Hvernig má draga úr brottfalli iðkenda?
f) Hvernig fáum við fleiri konur til að sinna dómgæslu?
g) Hvernig má auka enn frekar umfjöllun fjölmiðla og annarra um knattspyrnu kvenna?

Án nokkurs vafa eru fleiri atriði sem þarf að ræða í því skyni að styrkja innviði knattspyrnu kvenna á Íslandi – en nú er tímabært að móta línur til næstu ára. KSÍ hefur staðið fyrir áhugaverðri herferð með auglýsingum sem vakið hafa athygli víða – en betur má ef duga skal og enn sem fyrr verk að vinna.

Gísli Gíslason,
í stjórn KSÍ.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner