Franski miðjumaðurinn Paul Pogba gekk til liðs við AS Mónakó í sumar en hefur ekki enn spilað sinn fyrsta leik fyrir félagið.
Það eru liðin meira en tvö ár síðan Pogba spilaði síðast keppnisleik í fótbolta og þá eru þrjú og hálft ár síðan hann spilaði meira en 45 mínútur í keppnisleik.
Tíð meiðslavandræði settu strik í reikninginn og svo var Pogba dæmdur í leikbann eftir fall á lyfjaprófi.
Eftir að hafa samið við Mónakó hefur Pogba unnið hörðum höndum að því að koma sér í leikform. Hann sneri þó upp á ökkla á æfingu liðsins í vikunni og hefur það framlengt biðina í endurkomu hans á völlinn.
Mónakó spilar við Paris FC í frönsku deildinni á morgun og á svo leiki við Bodö/Glimt og Lens fyrir landsleikjahlé. Pogba vonast til að geta komið við sögu fyrir landsleikjahléð en í versta falli ætti hann að vera liðtækur í seinni hluta nóvember, eftir hlé.
Athugasemdir



