Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 07. nóvember 2022 16:13
Elvar Geir Magnússon
KR harmar vinnubrögðin í tengslum við Kjartan Henry
Kjartan Henry í leik með KR.
Kjartan Henry í leik með KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Knattspyrnudeild KR hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna samningamála Kjartans Henry Finnbogasonar en félagið rifti samningi við hann í lok liðins tímabils eins og mikið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum

„Stjórn knattspyrnudeildar KR harmar þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í tengslum við uppsögn á samningi Kjartans," segir í yfirlýsingunni sem birt er á Facebook.

„Stjórn knattspyrnudeildar KR vill enn fremur árétta að Kjartan Henry hefur aldrei nokkurn tímann gerst brotlegur við reglur félagsins eða viðhaft einhvers konar háttsemi sem felur í sér agabrot af einhverju tagi."

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, sagði í viðtali í síðasta mánuði að Kjartan hefði framið agabrot en miðað við þessa yfirlýsingu var svo ekki.

„Kjartan er borinn og barnfæddur KR-ingur sem lék upp alla yngri flokka félagsins. Kjartan hefur gegnt lykilhlutverki í meistaraflokki félagsins á að baki 242 mótsleiki með KR og skorað í þeim 110 mörk. Þá hefur Kjartan unnið 6 titla og er markahæsti leikmaður félagsins í Evrópu frá upphafi. Við KR-ingar þökkum Kjartani kærlega fyrir hans framlag til félagsins og óskum honum velfarnaðar," segir í yfirlýsingu stjórnar KR, sem formaðurinn Páll Kristjánsson skrifar undir.

Kjartan er 36 ára og er án félags eftir riftunina hjá KR. Hann segist þó alls ekki vera á því að hætta í boltanum.


Athugasemdir
banner