
Fimmta umferð Bestu deildar kvenna fer af stað í kvöld með þremur leikjum. Svo eru tveir síðustu leikir umferðarinnar á morgun.
Gylfi Tryggvason, þjálfari Grindavík/Njarðvík í Lengjudeild kvenna, tók að sér það verkefni að spá í leikina og hann ætlar sér að ná fimm réttum.
Gylfi Tryggvason, þjálfari Grindavík/Njarðvík í Lengjudeild kvenna, tók að sér það verkefni að spá í leikina og hann ætlar sér að ná fimm réttum.
Tindastóll 0 - 3 Breiðablik (16:30 í dag)
Tindastóll hafa byrjað þetta mót af krafti en þær hafa ekki spilað á móti Sammy Smith. Leikplan Tindastóls verður einfalt: Hrafnhildur Salka á að vera frakki á Sammy Smith í leiknum. Fer ekki betur en svo að Hrafnhildur fær rautt spjald eftir þrjár mínútur fyrir að toga í hárið á henni. Við að sjá rauða spjaldið tryllist hún og labbar alla 306 kílómetrana heim.
Aftur að leiknum. Eftirleikurinn verður auðveldur og Heiða Ragney skorar þrennu.
Valur 0 - 1 Þróttur R. (18:00 í dag)
Valsstelpur voru ekki nógu svalar fyrir framan markið gegn Stjörnunni. Kvalarfullt var að horfa á sóknarleik liðsins í þeim leik. Jordyn Rhodes sem átti að vera hvalreki hefur legið í dvala í byrjun móts.
Mér sýnist að Þróttur séu líklegastar til að geta haldið í við Blikastelpur í kapphlaupi um titilinn. Ef þær ætla sér alla leið í þeirri baráttu þurfa þær að vinna leiki eins og þennan.
Leikurinn verður sannkölluð refaskák og ég held að Katie Cousins muni skilja nokkra stuðningsmenn Vals eftir gáttaða á að félagið hafi ekki endursamið við hana. Hún mun gera útslagið í þessum leik og 0-1 sigur Þróttara raunin.
FHL 0 - 3 Þór/KA (18:00 í dag)
FHL eru búnar með innbyrðis leiki gegn Tindastól og Fram, reyndar báða á útivelli. Uppskeran hefur verið rýr og ég sé ekki fyrir mér að Sandra Jessen nenni að fara í gegnum annan mánuð án þess að skora mark. Hún stimplar sig í vinnuna og setur þrjú í grillið á þeim. Þá segir Aida: Nú er mér að maida. Sólar sig í gegnum allan völlinn og leggur hann til hliðar á Hope sem klúðrar í algjöru dauðafæri. Hope brotnar niður og hleypur út úr Fjarðabyggðarhöllinni. Þá er öll von úti og 0-3 lokatölur.
Víkingur R. 1 - 0 Fram (18:00 á morgun)
Leikurinn verður í járnum frá fyrstu spyrnu en á 50. mínútu yfirgefur Óskar Smári völlinn og gerir sér ferð upp í Árbæ að horfa á Fylki - Grindavík/Njarðvík sem hefst kl. 19:15 á tekk VELLINUM (hvet fólk til að mæta á þann leik). Við það riðlast skipulag Framara, Pálmi aðstoðarþjálfari breytir yfir í tígulmiðju og Víkingur keyrir yfir Fram í seinni hálfleik. Sókn eftir sókn eftir sókn. Það eina sem mun koma í veg fyrir stærri sigur Víkinga verður Olga Ingibjörg sem verður maður leiksins. Við þessi úrslit vakna Víkingar og nokkurra leikja sigurhrina fer af stað. Á meðan heldur Fram áfram að vinna leikina sem skipta máli og tapa leikjunum sem skipta ekki máli. Allt samkvæmt plani.
FH 1 - 1 Stjarnan (18:00 á morgun)
Áhugaverður leikur. Besta varnarliðið hingað til mætir því lélegasta. Anna María er reyndar komin í vörn Stjörnunnar með sína mögnuðu áru. FH pressar hátt sem skilar litlu því Stjarnan sparkar bara yfir þær. Verður leiðinleg stöðubarátta framan af. FH stýrir leiknum en skapa sér ekki nóg. Úlfa Dís fer í hundrað 1v1 árásir og á 87. mín. kemst hún upp vinstri kantinn og leggur hann út þar sem Arna Dís er mætt og skorar, 0-1. Þær fagna markinu saman og stuðningsmenn FH verða ósáttir með það í stúkunni, enda báðar fyrrum leikmenn FH. Þegar þeir sjá að þær eru að taka Cold Palmer fagnið verða þeir heillaðir og byrja að fagna með báðum stuðningsmönnum Stjörnunnar sem mæta á leikinn. Eftir þetta glæsilega fagn verða þær kallaðar Úlfa Ís og Arna Ís.
En Adam var ekki lengi í paradís. Á 94. mínútu fá FH-ingar hornspyrnu. „ALLIR INN Í“ garga bræðurnir af hliðarlínunni. Hildur Katrín neglir boltanum á nærstöngina og þar svífur kvenna hæst Aldís markmaður og sneiðir boltann í fjærhornið. Stúkan hristist og Aldís tekur að sjálfsögðu líka Cold Palmer fagnið og verður kölluð Kaldís í kjölfarið.
Niðurstaðan 1-1 og eftir leik brjótast fram slagsmál yfir hvort liðið hefði átt nettara fagn. Hulda Hrund fer þar fremst í flokki, enda liðsfélagi góður og með 28 ára reynslu í að pakka saman tvíburabróður sínum. Þar sannast enn og aftur hið fornkveðna að þú getur tekið Huldu úr Árbænum en þú tekur ekki Árbæinn úr Huldu. Birna og Jana verða einnig með dólg en það þykir líklega ekki fréttnæmt lengur…
Fyrri spámenn:
Adda Baldurs (5 réttir)
Mist Rúnarsdóttir (4 réttir)
Emelía Óskarsdóttir (3 réttir)
Ásta Eir (2 réttir)
Hér fyrir neðan má sjá stigatöfluna í Bestu deild kvenna eins og hún er akkúrat núna.
Besta-deild kvenna
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Breiðablik | 4 | 3 | 1 | 0 | 19 - 4 | +15 | 10 |
2. FH | 4 | 3 | 1 | 0 | 8 - 1 | +7 | 10 |
3. Þróttur R. | 4 | 3 | 1 | 0 | 7 - 3 | +4 | 10 |
4. Valur | 4 | 2 | 1 | 1 | 5 - 1 | +4 | 7 |
5. Þór/KA | 4 | 2 | 0 | 2 | 6 - 8 | -2 | 6 |
6. Stjarnan | 4 | 2 | 0 | 2 | 6 - 13 | -7 | 6 |
7. Tindastóll | 4 | 1 | 0 | 3 | 3 - 5 | -2 | 3 |
8. Víkingur R. | 4 | 1 | 0 | 3 | 7 - 11 | -4 | 3 |
9. Fram | 4 | 1 | 0 | 3 | 4 - 12 | -8 | 3 |
10. FHL | 4 | 0 | 0 | 4 | 1 - 8 | -7 | 0 |
Athugasemdir