sun 08. desember 2019 12:41
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kovac hefur áhuga á að taka við Arsenal
Kovac var rekinn frá Bayern í síðasta mánuði.
Kovac var rekinn frá Bayern í síðasta mánuði.
Mynd: Getty Images
Króatinn Niko Kovac hefur áhuga á því að taka við Arsenal og vita hæstráðendur félagsins af áhuga hans. Það er Charles Watts á Goal.com sem segir frá þessum tíðindum.

Kovac (48) var rekinn frá þýska stórveldinu Bayern München í síðasta mánuði eftir að hafa stýrt félaginu í tæpa eina og hálfa leiktíð. Á fyrsta tímabilinu með Bayern stýrði Kovac liðinu til sigurs í deild og bikar í Þýskalandi.

Hann er þessa stundina staddur á Englandi og var hann á leik Everton og Chelsea í gær, sem Everton vann 3-1.

Eftir að hann sást á Goodison Park fóru af stað sögusagnir um að hann væri mögulegur arftaki Marco Silva hjá Everton. Hann hefur hins vegar sagt að hann sé í Englandi að horfa á fótbolta á meðan hann er í fríi.

Talið er að hann mæti á leik Aston Villa og Leicester í dag og verði svo í London annað kvöld á leik Arsenal gegn West Ham.

Goal segist hafa komist að því að Kovac hafi áhuga á því að taka við stjórastarfinu hjá Arsenal af Unai Emery sem var rekinn á dögunum. Forráðamenn Kovac hafa verið í sambandi við Arsenal til að lýsa yfir áhuga á starfinu.

Freddie Ljungberg stýrir Arsenal til bráðabirgða. Hann hefur hingað til stýrt Arsenal í tveimur leikjum, í 2-2 jafntefli gegn Norwich og í 2-1 tapi gegn Brighton.

Arsenal er byrjað að ræða við mögulega kandídata í starfið að sögn Charles Watts og nefnir hann Mikel Arteta og Massimiliano Allegri sérstaklega.

Telegraph segir að Arteta, núverandi aðstoðarstjóri Manchester City, sé líklegastur í starfið, en hann muni þurfa að fara í gegnum langt viðtalsferli til að fá starfið.

Arsenal er líka sagt hafa áhuga á Mauricio Pochettino, fyrrum stjóra nágrannana í Tottenham. Pochettino hefur áður talað um að hann muni aldrei stýra Arsenal vegna tengsla sinna við Tottenham, en það er spurning hvað gerist.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner