mið 09. júní 2021 09:17
Elvar Geir Magnússon
Undankeppni HM: Neymar skoraði og Argentína fékk á sig flautumark
Neymar fagnar með Richarlison og Gabriel Jesus.
Neymar fagnar með Richarlison og Gabriel Jesus.
Mynd: EPA
Brasilía er með fullt hús að loknum sex umferðum í Suður-Ameríkuriðli undankeppni HM, liðið er með sex stiga forystu á Argentínu á toppnum eftir leiki næturinnar.

Neymar skoraði og lagði upp í 2-0 sigri gegn Paragvæ í nótt. Hann kom boltanum í netið eftir fjórar mínútur og í uppbótartíma lagði hann svo upp mark fyrir Lucas Paquet, leikmann Lyon.

Argentína er ósigrað í riðlinum en gerði sitt þriðja jafntefli þegar liðið missti niður tveggja marka forystu gegn Kólumbíu. Jöfnunarmarkið 2-2 kom í uppbótartíma og urðu það úrslit leiksins.

Argentína skoraði sín mörk á fyrstu átta mínútum leiksins, Cristian Romero og Leandro Paredes með mörkin. Snemma í seinni hálfleik komst Kólumbía inn í leikinn þegar Luis Muriel skoraði af vítapunktinum og það var svo Miguel Borja sem reyndist hetjan með jöfnunarmarkinu.

Argentínski markvörðurinn Emiliano Martínez fór af velli á börum í leiknum. Martínez átti frábært tímabil með Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni og vann sér inn að verða aðalmarkvörður argentínska landsliðsins. Hann lenti illa í leiknum í baráttu við Yerry Mina og rotaðist.

Eftir leikinn sagði Martínez að hann væri orðinn miklu betri og vonast til að verða klár í slaginn fyrir Copa America, Suður-Ameríkubikarinn, sem fer af stað um helgina.

Önnur úrslit í undankeppni HM: Ekvador 1-2 Perú, Venesúela 0-0 Úrúgvæ, Síle 1-1 Bólivía.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner