Rabiot nálgast Man Utd - Mount til sölu - Branthwaite fær stórbættan samning - Kante hefur náð samkomulagi við West Ham
   þri 09. ágúst 2022 17:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Skaut aðeins á Rúnar - Fengið sjö spjöld í ellefu leikjum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Þór Sigurgeirsson, vinstri bakvörður Keflavíkur, tók út leikbann í gær þegar Keflavík vann 1-2 útisigur á Leikni í Bestu deildinni.

Það eitt og sér er kannski ekki frásögu færandi en það er athyglisvert að þetta er í annað sinn í sumar sem Rúnar tekur út leikbann. Hann hefur fengið sjö gul spjöld í ellefu leikjum.

Hann var þó ekki úrskurðaður í bann síðasta þriðjudag eins og venjan er því að spjaldið sem hann fékk gegn ÍBV, sjöunda spjaldið í sumar, skráðist upphaflega ekki á hann en var lagað eftir á og því var hann ekki úrskurðaður í leikbann fyrr en seinna í síðustu viku.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, var spurður út í Rúnar Þór í viðtali í gær. Voru Keflvíkingar meðvitaðir um að Rúnar væri á leið í bann?

„Ég væri að segja ósatt ef ég myndi segja að þetta hefði farið alveg framhjá okkur öllum. En maður sér þetta ekki á upptökunni á leiknum, það voru skiptingar á sama tíma. Ég sjálfur vissi ekki að hann væri búinn að fá gult enn hann var dæmdur í bann og það réttilega - búinn að fá of mörg spjöld. Of mörg fyrir eitthvað annað en brot, ég skil þegar leikmenn þurfa að brjóta en stundum erum við að æsa okkur við dómarann og línuvörðinn og við þurfum að laga það," sagði Siggi Raggi.

Rúnar varð annar leikmaðurinn í Bestu deildinni til að fá sjö áminningar í sumar. Vikuna áður krækti Alex Freyr Elísson í sitt sjöunda spjald og kom það í hans tólfta leik í sumar.
Fannst sigurinn verðskuldaður - „Níunda markið í sumar sem við skorum á síðasta korterinu"
Athugasemdir
banner
banner