Man Utd hefur áhuga á Yoro - Osimhen í forgangi hjá Chelsea - Napoli, Juve og Atletico hafa áhuga á Greenwood
banner
   fim 11. janúar 2024 11:38
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viktor Bjarki í FC Kaupmannahöfn (Staðfest)
Mynd: FC Kaupmannahöfn
FC Kaupmannahöfn, stærsta félag Norðurlanda, heldur áfram að sækja unga og efnilega íslenska fótboltamenn til sín.

Knattspyrnudeild Fram og danska félagið hafa komist að samkomulagi um vistaskipti Viktors Bjarka Daðasonar.

„Hinn 15 ára gamli Viktor Bjarki vann hug og hjörtu Framara með liði Fram í Bestu Deildinni seinni hluta sumars 2023 og hefur verið eftirsóttur af mörgum af stærri liðum Skandinavíu og víðar. Þetta undirstrikar það frábæra starf sem unnið er í yngri flokkum Fram," segir í tilkynningu Fram.

Viktor Bjarki fer til Kaupmannahafnar í sumar þegar hann verður 16 ára gamall.

„Hann er mjög spennandi sóknarmaður og er sterkur líkamlega, með mikinn hraða og góða tækni. Við sjáum mikla framtíð í honum," segir Mikkel Lund Køhler, yfirmaður leikmannamála hjá akademíu FCK.

FCK gekk á dögunum frá kaupum á Gunnari Orra Olsen sem kemur frá Stjörnunni. Það hefur gengið vel fyrir unga íslenska leikmenn að fara til Kaupmannahafnar á undanförnum árum og verður spennandi að sjá hvernig þessum efnilegu leikmönnum vegnar hjá félaginu.
Athugasemdir
banner