banner
   fim 12. maí 2022 14:17
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Þjálfari Bayern hættir í sumar (Staðfest)
Mynd: Getty Images
Í dag var greint frá því að þjálfari kvennaliðs Bayern Munchen, Jens Scheuer, verði ekki áfram þjálfari liðsins þegar tímabilinu lýkur. Hann lýkur formlega störfum þann 1. júlí.

Þetta er niðurstaðan eftir viðræður milli yfirmanns fótboltamála hjá kvennaliðinu, yfirmanns íþróttamála og þjálfarans.

Scheuer varð þýskur meistari sem þjálfari liðsins í fyrra en hann tók við liðinu sumarið 2019. Í ár endaði liðið í 2. sæti deildarinnar eins og liðið gerði árið 2020.

Árið 2021 komst liðið einnig í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir varð meistari með liðinu í fyrra og síðasta sumar gekk Glódís Perla Viggósdóttir í raðir félagsins.

Í janúar kom svo Cecilía Rán Rúnarsdóttir til félagsins á láni frá Everton og á dögunum var greint frá því að Cecilía myndi ganga alfarið í raðir Bayern.

Bayern er fjórum stigum á eftir Wolfsburg í deildinni þegar ein umferð er eftir. Liðið féll úr leik í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner