fös 13. mars 2020 16:35
Magnús Már Einarsson
Emil Hallfreðs heima í sóttkví: Æfir á assault bike og hlaupabretti
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Eins og staðan er núna þá er maður heima í sóttkví með fjölskyldunni," sagði íslenski landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson við Fótbolta.net í dag.

Emil kom til landsins frá Ítalíu fyrr í vikunni og fór beint í sóttkví eins og aðrir sem koma frá Ítalíu. Emil kom til Íslands til að klára sóttkví áður en Ísland mætir Rúmeníu þann 26. mars í umspili um sæti á EM.

Kórónaveiran hefur haft mikil áhrif á Ítalíu undanfarnar vikur og í vikunni var sett farbann þar í landi. Emil, sem spilar með Padova á Ítalíu, kom heim daginn áður en farbannið var sett.

„Þú getur farið heim ef þú ert með upp á skrifað að þú verður að fara út af vinnuverkefni. Ég var með þau eyðublöð en það kom ekki til að ég notaði þau því ég fór daginn áður en lögin voru sett," sagði Emil.

Ánægður með Ítali
Padova hefur ekkert spilað að undanförnu út af kórónuveirunni.

„Við vorum ekki búnir að spila í tvær vikur af því að það voru smit í kring. Það var rólegra úti á götum. Fólk var ekki mikið að fara út. Fólk er að passa sig eins og það hefur verið mælt með að gera. Í dag eru komnar þannig reglur að það má ekki fara út úr húsi nema það sé með ákveðið leyfi. Það má fara í súpermarkað eða apótek. Þeir eru að tækla þetta eins og í Kína. Það er sóttkví á alla og reyna að losna við þetta."

„Ég verð að hrósa Ítölunum fyrir það hvernig þeir hafa gert þetta allt saman. Þeir eru gjörsamlega all in og ætla að berjast fyrr þessu með kjafti og klóm. Maður er nokkuð stoltur af þeim."


Emil hefur verið í daglegu sambandi við vini sína ytra. „Þetta eru spes tímar en það eru allir eins mikið heima og þeir geta til að hægja á þessu öllu saman."

Æfir heima
Emil heldur sér í formi á meðan hann er í sóttkví heima hjá sér en hann þekkir það vel að æfa einn.

„Ég er vanur eftir að hafa verið liðslaus. Ég á assault bike og hlaupabretti. Maður má fara í göngutúra ef maður er ekki nálægt fólki. Við erum heppin því við búum nálægt Urriðavatninu og við fjölskyldan getum farið í göngutúra þar í kring þegar það er rólegt. Þetta er ekki óskastaða og maður virðir þær reglur sem eru settir með glöðu geði."

Óvíst er hvort landsleikurinn gegn Rúmenum fari fram 26. mars en það verður ákveðið á fundi UEFA á þriðjudag. Hvað gerist ef leikurinn verður ekki?

„Þá fer ég aftur til Ítalíu. Ég verð í sambandi við félagið og sé hvort það verður ennþá sóttkví úti. Ég undirbý mig undir að leikurinn verði en ef það verður ekki þá skoðar maður aðstæður," sagði Emil að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner