
Ronaldo, sem er einn besti leikmaður í sögu Brasilíu, er á því að Neymar og aðrir leikmenn brasilíska liðsins eigi að sækja í sálfræðiaðstoð eftir vonbrigðin á HM í Katar þar sem liðið var undir „óhóflegri pressu".
Neymar viðurkenndi eftir tapið í vítaspyrnukeppni gegn Króatíu í 8-liða úrslitum að hann væri eyðilagður andlega.
„Ég mæli með því að fá sálfræðiaðstoð til að standast þessa pressu, sem hefur verið í mjög óhóflegu magni fyrir hvaða manneskju sem er," sagði Ronaldo.
„Neymar mun snúa aftur með sömu ástríðu og sömu þrá. En ég vil benda á þessa þörf til að fylgjast með andlegri heilsu leikmanna okkar. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að vekja athygli á þessu, sérstaklega þegar kemur HM þar sem allur heimurinn fylgist með landsliðinu. Heimurinn fylgdist með Neymar."
Neymar á eftir að vinna titil með brasilíska landsliðinu, hann var ekki með brasilíska liðinu þegar liðið vann Copa America 2019.
„Þegar ég sá viðtalið við Neymar þar sem hann sagðist vera andlega eyðilagður, þá braut það hjarta mitt, ég var einnig andlega eyðilagður. Ég vildi finna leið til að hjálpa honum. Sú hjálp er til í dag. Á mínum tíma var lítið talað um þetta," sagði Ronaldo
Neymar hefur sagt að hann sé ekki viss hvort hann muni halda áfram með landsliðinu.
Athugasemdir